Radisson hótelkeðjan hyggst opna Radisson RED hótel á Íslandi á öðrum ársfjórðungi ársins 2020. Um er að ræða fyrsta RED hótelið á Norðurlöndunum en fyrir eru þrjú Radisson hótel á Íslandi. Hótelið mun telja 195 herbergi á 17 hæðum að því er kemur fram í tilkynningu.

„Staðsetningin í miðborginni er í göngufjarlægð við helstu verslunargötu miðbæjarins, skemmtistöðum og fjármálahverfinu, en þetta 17 hæða hótel verður með stórbrotið útsýni yfir sundin blá, borgina og fjallahringinn,“ segir í tilkynningunni.

Radisson hótelin þrjú sem fyrir eru á Íslandi eru Radisson Blue 1919 í miðborg Reykjavíkur, Radisson Blu Hótel Saga og Park Inn by Radisson í Keflavík.

Fyrir opnun hins nýja hótels í Reykjavík eru Radisson RED hótelin fimm talsins, í Brussel, Campinas, Höfðaborg, Glasgow og Minneapolis en vörumerkinu er ætlað að ná til þúsaldarkynslóðarinnar.

„Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi við Radisson Hotel Group um opnun nútímalegs og spennandi Radisson RED hotels sem mun skarta stórbrotnu útsýni yfir borgina. Gestir okkar munu fá einstakt tækifæri til að sérsníða dvöl sína eftir eigin höfði, hvert sem erindi þeirra er, til að njóta alls þess sem borgin hefur upp á að bjóða, einstakrar náttúru eða sinna viðskiptum“ er haft eftir Inga Guðjónssyni, stjórnarformanni Rauðsvíkur ehf. og S26 Hotel ehf. í tiklynningunni..