Hildur Petersen stofnaði fyrirtækið Vistvæn framtíð á síðasta ári með það að markmiði að koma í veg fyrir plastnotkun landsmanna. Hugmyndina segir Hildur hafa þróast út frá öðru fyrirtæki. „Ég var reyndar með annað fyrirtæki í fimm ár þar á undan sem seldi vörur til ferðamanna en við vorum smám saman að færa okkur yfir í umhverfisvænar vörur líka,“ segir Hildur. „Upphafið var ákveðin vara sem kom út úr listaháskólanum, bolur úr umhverfisvænum efnum. Þannig fór maður að hugsa um umhverfismálin,“ bætir hún við.

Hildur virðist þannig úr garði gerð að þegar hún byrjar að hugsa um eitthvað er ekki langt í að aðgerðir fylgi en fljótlega var hún farin að selja aðrar umhverfisvænar vörur. „Við byrjuðum á innkaupanetum, en fórum svo að færa það aðeins út og það endaði þannig að á síðasta ári ákvað ég að einbeita mér alveg að því,“ segir hún.

Ögrandi boðskapur

„Kjarninn í þessu sem við erum að selja núna eru ýmsar lausnir fyrir innkaupin sem eru með boðskap og ýmsar nýjungar í því. Við fengum þrjá listamenn bæði til þess að gera myndefni og texta sem lúta að menguninni í hafinu,“ segir Hildur. Textarnir á pokunum vekja nokkra eftirtekt en meðal þeirra eru Ekki halda fast í plast, Ráðlagður dagskammtur af plasti 0% og Plastið sem hverfur úr lífi þínu birtist í lífi annarra.

Hildur segir jafnframt að svo virðist sem hið umhverfisvæna viðskiptamódel sé að ganga upp. „Já, það má segja það, við erum að taka fyrstu skrefin. Það er komin ákveðin vörulína með ögrandi myndum og textum og við erum búin að koma þessu fyrir í ansi mörgum góðum verslunum. Öllum Hagkaupsverslununum, Fjarðakaupum, Melabúðinni og fleiri búðum,“ segir hún en hvernig taka neytendur í vöruna? „Bara mjög vel og það eru allir bara mjög heillaðir af þessum myndum og þessum boðskap.“

Þá segir hún jafnframt að fyrirtækið ætli að hvetja til þess á nýju ári að umhverfisvænar vörur skipi sér sess meðal tækifærisgjafa hjá Íslendingum. „Það er eitt sem við ætlum okkur að leggja dálitla áherslu á, á árinu, það er svona poki eða innkaupanet með tveimur pokum fyrir grænmetisinnkaupin. Það eru þeir sem eru búnir að tileinka sér að nota innkaupapoka, næsta skref fyrir þá er að sleppa líka þunna plastpokanum í grænmetisborðinu. Við viljum koma þessum settum að sem tækifærisgjöfum. Að gefa fólki svona í staðinn fyrir vínflösku eða konfektkassa,“ segir Hildur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .