Menntamálaráðuneytið áréttar að þó það hafi veitt Keili heimild til að kenna staðfesta bóknámsbraut til stúdentsprófs, hafi þar með hvorki falist loforð um framlög né fjárskuldbinding af hálfu ríkissjóðs.

Birti ráðuneytið fréttatilkynningu um málið vegna umræðu í fjölmiðlum um málefni Keilis, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur skólinn sent frá sér yfirlýsingu um að vegna tregðu menntamálaráðuneytisins geti ekki orðið af nýrri námsbraut til stúdentsprófs við skólann með áherslu á tölvuleikagerð.

„Í þessu sambandi verður að hafa í huga að viðurkenning einkarekinna skóla á framhaldsskólastigi er tengd tegund náms og er framkvæmd af Menntamálastofnun. Gerð þjónustusamnings við skóla, þar sem m.a. er kveðið á um fjárframlög til kennslu tiltekinna námsbrauta, er allt annað ferli og er á forræði ráðuneytisins,“ segir í tilkynningunni.

„Í byrjun apríl sl. óskaði Keilir eftir fjárframlagi frá ráðuneytinu til að kenna 60 ársnemendum á stúdentsbraut frá haustinu 2017, þar sem m.a. yrði lögð áhersla á leikjagerð. Því erindi var svarað 5. maí sl. þar sem beiðninni var hafnað, m.a.  vegna þess að í spám um fjölda nemenda á árunum 2016-2020 er gert ráð fyrir 14% fækkun á Suðurnesjum. Ef ráðuneytið hefði orðið við ósk Keilis hefði þurft að fækka um samtals jafn marga ársnemendur í öðrum framhaldsskólum með tilheyrandi afleiðingum.

Í þjónustusamningi ráðuneytisins við Keili, sem gilti frá 1. janúar 2014 til 30. júní 2016, er kveðið á um fjárveitingar til aðfararnáms (Háskólabrúar, sem er til undirbúnings náms við Háskóla Íslands) og til námsbrautar fyrir einka- og styrktarþjálfara. Á fundi í ráðuneytinu 5. maí sl. óskaði Keilir m.a. eftir breytingum á þjónustusamningi við ráðuneytið til að geta nýtt afgang af rekstrarfé Háskólabrúar til að hefja kennslu á stúdentsbraut.

Ráðuneytið féllst ekki á ósk Keilis enda eru fjárveitingar bundnar við kennslu á tilteknum námsbrautum. Ef ekki er eftirspurn eftir því námi, sem fjárveitingar voru ætlaðar til, metur ráðuneytið og ákveður hvernig ráðstafa skuli þeim fjármunum sem út af standa.

Skólanum hefur verið sendur viðauki við þjónustusamninginn sem yrði framlenging á honum til ársloka 2017. Gert er ráð fyrir að fljótlega verði farið í undirbúning nýs samnings og gefst þá m.a. tækifæri til að ræða hvaða námsbrautir ráðuneytið vill gera samning um.“