Nokkur félög og einstaklingar sem tóku út háar fjárhæðir úr peningamarkaðssjóði Glitnis stuttu fyrir þjóðnýtingu bankans voru sérstaklega skoðaðar af skilanefndinni með það að augnamiði að rifta viðskiptunum.

Heildarfjárhæðin sem skoðuð var nam 3,1 milljarði króna en Guðbjörg Matthíasdóttir, stærsti eigandi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, átti um þriðjung þeirrar upphæðar að því er kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins um málið.

Guðbjörg Matthíasdóttir seldi hluti sína í Glitni þrem dögum fyrir þjóðnýtingu

Úttektir sem gerðar voru stuttu fyrir þjóðnýtingu Glitnis 29. september og dagana fyrir hrun bankans 7. október 2008 voru skoðaðar sérstaklega til að meta hvaða af innlausnunum væri hæft að rifta. Skjalið virðist hafa verið tekið saman í eða í kringum mars árið 2010.

Guðbjörg var stór hluthafi í Glitni á sínum tíma en hún seldi bréf sín þremur dögum fyrir þjóðnýtingu bankans. Eignarhaldsfélögin Fram og Kristinn í eigu Guðbjargar tóku út um milljarð króna úr Peningamarkaðssjóðnum, sjóði 9, auk þess tók hún persónulega út 75 milljónir króna út.

Benedikt Sveinsson, Sigurður Sigurgeirsson, Helga Guðrún og Ólafur Ó. Johnson meðal nefndra

Einnig tók athafnamaðurinn Benedikt Sveinsson út samtals 600 milljónir út úr sjóðnum, þar af 500 milljónir þremur dögum fyrir þjóðnýtinguna.

Í skjalinu eru einnig nefndar úttektir systkinanna Helgu Guðrúnar Johnson og Ólafs Ó. Johnson í nafni félags síns Johnson ehf, einnig úttekt byggingarverktakans Sigurðar Sigurgeirssonar sem nam 502 milljónum króna.