Viðskiptaþingið 2020, sem fer fram milli 1 og 4 13. febrúar næstkomandi í Silfurbergi, Hörpu mun hafa yfirskriftina „Á grænu ljósi – fjárfestingar og framfarir án fótspors“. Ræðumenn koma frá DWS Group, McKinsey & Company, Bank J. Safra Sarasin og víðar.

Þingið mun fjalla um hvernig viðskiptalífið ber hitann og þungann af því að knýja fram nýsköpun og framfarir í umhverfismálum, m.a. í gegnum grænar fjárfestingar og endurhugsun á allri virðiskeðjunni.

Viðskiptaþing var fyrst haldið árið 1975 og hefur það í gegnum árin stuðlað að mikilvægri umræðu um stöðu og horfur íslensks viðskipta- og efnahagslíf, en á vef Viðskiptaráðs eru leiðbeiningar um hvernig hægt er að kaupa miða.

Framsögufólk þingsins í ár verða:

Roelfien Kuijpers , yfirmaður ábyrgra fjárfestinga og stefnumótandi tengsla hjá DWS Group á Írlandi, Skandinavíu og Bretlandi og í haust valin ein af 25 áhrifamestu konum heims í fjármálum af American Banker. Á 35 ára ferli sínum hefur hún verið leiðandi í umræðunni um mikilvægi sjálfbærni, fjölbreytileika og jafnrétti á fjármálamörkuðum og m.a. gegnt formennsku félags Deutsche Bank kvenna á Wall Street.

Klemens Hjartar , hefur verið meðeigandi McKinsey & Company í tvo áratugi og leiðir þar stafræna og greiningardrifna breytingastjórnun. Hann var forsprakki McKinsey-skýrslunnar frá árinu 2012 sem olli straumhvörfum í umræðu um íslensk efnahagsmál og verið mikilvægur leiðarvísir síðan. Klemens mun á þinginu lýsa hinni svokölluðu „1000 milljarða áskorun“ í grænu ljósi og fara yfir stóru myndina fyrir Ísland.

Sasja Beslik , forstöðumaður sjálfbærra fjárfestinga hjá Bank J. Safra Sarasin í Sviss. Hann á að baki áratugar feril hjá Nordea sem sérfræðingur í ábyrgum fjárfestingum og hefur starfað sem ráðgjafi fyrir Worldbank ásamt því að hljóta fjölda verðlauna, m.a. Young Global Leader hjá World Economic Forum og æðstu orðu Svíakonungs fyrir framlag sitt til sænskrar umhverfis- og sjálfbærnistefnu.

Andri Guðmundsson , er framkvæmdastjóri Fossa markaða í Stokkhólmi. Hann hefur verið ötull talsmaður grænna skuldabréfa þar sem útgefendur og fjárfestar geta brugðist við þeirri áhættu sem áhrif loftslagsbreytinga hefur með því að beina fjárfestingum sínum í sjálfbær verkefni.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir , er framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum. Hún er einn af stofnaðilum IcelandSIF og hefur verið leiðandi í að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga sem og hvetja til aukinnar umræðu um efnið hér á landi.

Venju samkvæmt flytur forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir ávarp og í ár mun formaður Viðskiptaráðs, Katrín Olga Jóhannesdóttir halda kveðjuræðu sína, en hún stígur úr formannsstóli eftir 4 ára formennsku hjá ráðinu. Fundarstjóri er framkvæmdastjóri ráðsins, Ásta S. Fjeldsted . Í kjölfar erinda fer fram móttaka þar sem boðið verður upp á léttar veitingar.