Flokksþing Framsóknarflokksins stendur yfir í Háskólabíó og verður kosið um formann flokksins á morgun. Í framboði eru sitjandi formaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og varaformaðurinn og forsætisráðherrann Sigurður Ingi Jóhannsson.

Sigmundur Davíð flutti klukkustundar langa ræðu fyrir hádegi þar sem hann fór yfir víðan völl. Sagði hann meðal annars líkt og svo oft áður að hann væri langt frá því að vera gallalaus en hefði setið undir árásum. Ræðu hans má sjá í heild sinni á vef Vísis með því að smella hér .

Sigurður Ingi fékk einungis stundarfjórðung til að halda ræðu og lýsti yfir óánægju sinni með það. Hann skaut föstum skotum á Sigmund Davíð og gaf í skyn að hann hefði misst allt traust en ekki tekist að byggja það upp aftur. Ræðu Sigurðar Inga má sjá á vef Vísis með því að smella hér .