Óprúttnir aðilar brutust inn í Bode safnið í Berlín og stálu 100 kílóa gullpeningi, sem er metinn á milljónir dollara. Málinu er gerð skil í frétt Bloomberg .

Að sögn talsmanns lögreglu á svæðinu, Stefen Petersen, komust þrjótarnir í gegnum gluggann á safninu í kringum hálf fjögur að næturlagi og brutust inn í skápinn þar sem að „Big Maple Leaf“ gullpeningurinn var geymdur. Þjófarnir voru horfnir af vettvangi þegar lögreglan mætti á svæðið.

Peningurinn, sem er þrír sentimetrar á þykkt og 53 sentimetrar að ummáli, er metinn á 1 milljón kanadískra dollara, en virði gullsins miðað við raunvirði er 4,5 milljónir dollara. Á gullpeningnum er hausmynd af Elísabetu II Bretlandsdrottningu.