Bill Tai, sprotafjárfestir og stjórnarformaður Bitfury, mun halda fyrirlestur hér á landi í næstu viku. Fyrirlestur hans er partur af viðburði sem ber heitið: Teikn á lofti tækninnar - tímabær ráðstefna og fræðslufundur um bjálkakeðjur (e. blockchain), hátækni og nýsköpun.

„Í fyrirlestri mínum mun ég fjalla um hlutverk rafmynta í fjórðu iðnbyltingunni og hvert hlutverk Íslands geti verið í þessari byltingu sem undirstöðuhluti af vistkerfinu. Við munum einnig bjóða upp á skoðunarferð í gagnaverin okkar" segir Bill. Bitfury er alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem notast við bjálkakeðjutækni og býður upp á hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausnir fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga sem byggjast á þessari bjálkakeðjutækni. Fyrirtækið „grefur" einnig eftir rafmyntinni Bitcoin og er með þrjú gagnaver hér á landi þar sem grafið er eftir Bitcoin. Þessi gagnaver eru í Reykjanesbæ.

Rafmyntir frábært tækifæri fyrir Ísland

Bill segir að aðstæður á Íslandi henti rafmyntageiranum vel og telur að sá geiri geti skapað framtíðartækifæri hér á landi. „Einn af hverjum átta Bitcoin sem finnast í heiminum eru staðsett á Íslandi. Ísland er með frábært tækifæri til framtíðar. Þrátt fyrir að landið sé ekki stórt með tilliti til stærðar landsins og íbúafjölda, er það risastórt í rafmyntaheiminum vegna stöðu landsins sem rafmagnsframleiðanda. Meðal stærstu atvinnugreina á Íslandi eru sjávarútvegurinn, rafmagnsframleiðsla og ferðaþjónustan. Ef hugsað er til þeirra atvinnutækifæra sem bíða barna á Íslandi í framtíðinni þá geta þau starfað við sjómennsku, í stóriðju eða sem leiðsögumenn. Svo verða auðvitað til staðar önnur störf, en margir sem gætu spilað stórt hlutverk í hagkerfinu og við nýsköpun á þeim vettvangi, munu þá fara í nám erlendis og ekki endilega snúa aftur. Þetta er því tækifæri fyrir Ísland að nýta eina af öflugustu endurnýtanlegu náttúruauðlindum sínum, í formi rafmagns, til sköpunar á hagkerfi næstu kynslóðar, sem gæti orðið það mikilvægasta í heimi. Bitcoin og aðrar rafmyntir eru kyndilberar nýs hagkerfis," segir Bill.

„Framleiðsla rafmagns er ódýr á Íslandi og rafmagn framleiðir Bitcoin. Án nokkurra afskipta stjórnvalda á Íslandi hafa næstum öll fyrirtæki sem grafa eftir Bitcoin reynt að koma upp aðstöðu á Íslandi. Ísland hefur orðið að hálfgerðum segli fyrir þennan rafeyrisgeira, án þess að hafa haft nokkuð fyrir því. Með örlítilli aðstoð frá stjórnvöldum getur Ísland nýtt sér þessa þróun og gert hana að einhverju sérstöku. Það eru tveir þættir sem er sérstaklega hægt að horfa til. Fyrsti þátturinn er það að rafmagn á Íslandi er ódýrt. Seinni þátturinn er svo að ef við hugsum um umsvif Íslands í viðskiptalífinu erlendis fyrir nokkrum árum síðan, sem endaði þó með fjármálahruni, þá er hægt að líta neikvætt á þau umsvif. En það sannar þó einnig að almenningur á Íslandi skilur nútímaviðskipti. Þú lendir í hæðum og lægðum þegar þú ferð á nýjar slóðir, en svo er einnig hægt að spyrja sig hvernig stóð á því að lítið land eins og Ísland gæti verið svona umsvifamikið í banka- og fjármálaheiminum. Það er því ljóst að það er þekking til staðar á Íslandi.

Ef stjórnvöld blanda saman því góða úr þessari þekkingu og því góða sem rafmagnið hefur upp á að bjóða og setur það saman, samhliða hagstæðri skattastefnu og menntakerfi sem er haldið vel við, þá gætu góðir hlutir átt sér stað. Með því að búa til starfsvænt umhverfi fyrir rafeyrisfyrirtæki, þá tel ég að íslensk stjórnvöld geti stuðlað að farsælu hagkerfi til næstu 50 ára. Ef stjórnvöld myndu styðja byggingu gagnavera og örva hugbúnaðarþróun á Íslandi, þá væru fyrirtæki eins og til dæmis við hjá Bitfury opin fyrir því að koma á fót bjálkakeðju-rannsóknastofum á Íslandi. Við gætum því búið til störf á Íslandi, þar sem við þyrftum til dæmis á forriturum að halda. Ef stjórnvöld koma upp hagstæðum skilyrðum á Íslandi fyrir okkar starfsemi, þá verður niðurstaðan sú að fleiri störf verða til, þekking eykst og björt framtíð í atvinnutækifærum fyrir íslensk börn" segir Bill.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .