Ummæli Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR í kvöldfréttum RÚV í gær fóru öfugt ofan í marga. Ragnar lýsti yfir vantrausti á hendur Guðrúnu Hafsteinsdóttur, varaformanni stjórnar LIVE og fyrrum forstjóra Kjörís, og sagði hana eiga að „snúa sér að því sem hún gerir best, sem er að framleiða ís.“

Ragnar hefur meðal annars verið vændur um karlrembu og kvenfyrirlitningu. Konráð Guðjónsson aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir að Ragnar ætti að snúa sér að því sem hann geri best, að selja reiðhjól, en Ragnar var lengi sölustjóri hjá reiðhjólabúðinni Erninum.

Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar segir ummælin dæmi um fullkomið þrot í rökræðum, en samflokkskona hennar á þingi, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, veltir því upp hvort það geti talist framför í jafnréttismálum að hann hafi þó ekki skipað henni að fara heim í eldhúsið. Ragnar upplifi sig kannski nýmóðins að viðurkenna að sumar konur vinni utan heimilisins.