Bæði Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður verzlunarmanna þurfa að endurgreiða hluta af ofgreiddum vöxtum til lánþega sem tóku lán á milli ársins 2001 til 2017, að því er fram kemur í ákvörðun Neytendastofu.

LV segir fjárhæðina í heild innan við 30 milljónir króna, eða sem samsvari að meðaltali um 10 þúsund krónur á hvert lán, en ákvörðunin hefur áhrif á um 8% sjóðfélagalána lífeyrissjóðsins.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir ákvörðunina sýna að sjóðurinn hafi brotið lög og heimtar afsökunarbeiðni. Lögbrotið hafi orðið við að hækka breytilega vexti á verðtryggðum lánum í maílok 2019 og segir hann sjóðinn „tala í kringum niðurstöðuna eins og þetta hafi bara verið saklaus misskilningur og verið skilmálunum að kenna“.

Ófullnægjandi upplýsingar um við hvaða aðstæður vextir breyttust

LV segir að um sé að ræða sjóðfélagalán með verðtryggða breytilega vexti sem gefin voru út af sjóðnum frá ársbyrjun 2001 til apríl 2017. Neytendastofa segir hins vegar að lán með breytilega verðtryggða vexti sem hafi verið gefin út síðan uppfylli lagaskilyrðin.

Fyrir þann tíma hafi lánaskilyrðin ekki geymt fullnægjandi ákvæði til grundvallar vaxtabreytingunum þar sem þau hafi ekki uppfyllt ákvæði laga um neytendalán.

Því hafi tilkynningin frá því 24. maí 2019 um vaxtabreytinguna á eldri lánunum brotið gegn ákvæðunum, því ófullnægjandi upplýsingar hafi verið „í skilmálum um það við hvaða aðstæður vextir breytist eða skilyrði við breytingu á vöxtum, eftir því sem við á.“ að því er segir í tilkynningu á vef sjóðsins .

Ekki tilefni til frekari aðgerða

Neytendastofa segir þó að eins og atvikum sé háttað telji stofnunin ekki tilefni til frekari aðgerða vegna brotsins. LV segir að um langt árabil hafi lánin miðast við ávöxtunarkröfu skuldabréfaflokks Íbúðalánasjóðs en sjóðurinn segir ákvörðunina um breytt viðmið hafa verið tekna því þessi tiltekni skuldabréfaflokkur hafi orðið óskilvirkur.

Markmiðið með nýju viðmiði hafi verið að móta eins hlutlægan grunn og hægt væri að vaxtaákvörðuninni eða eins og segir í frétt á vef LV:

„Í því sambandi er því miðað við ávöxtunarkröfu virks flokks verðtryggðra ríkisskuldabréfa að viðbættu álagi sem samanstendur af álagi með tilliti til sértryggðra skuldabréfa, seljanleikaálags, uppgreiðsluálags og umsýsluálags.“

Ragnar Þór krefst afsökunarbeiðni til „formanns og stjórnar VR“

Ragnar Þór, sem eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um , hefur löngum deilt við lífeyrissjóðinn um hvernig skipa eigi í stjórn hans, segir það löngum hafa verið vinnubrögð og viðhorf lífeyrissjóðanna að breiða yfir og gera lítið úr málum sem koma stjórnendum eða ímynd sjóðanna illa.

Segir hann að Fjármálaeftirlitið, sem nú er komið inn í Seðlabanka Íslands, hefði átt að taka á málunum með sama hætti og Neytendastofa er að gera núna og þannig sinna lögbundnu eftirliti í þágu neytenda í stað þess að hlutast til um aðgerðir stjórnar VR til að skipta út þeim stjórnarmönnum sjóðsins sem eru fulltrúar verkalýðsfélagsins.

„Ég fer fram á afsökunarbeiðni frá FME og Lífeyrissjóði Verslunarmanna til formanns og stjórnar VR vegna málsins,“ segir Ragnar í facebookfærslu sinni og vísar þar til sjálfs síns og stjórnar sinnar.



Hér má lesa frekari fréttir um mál VR: