Félag atvinnurekenda og fyrirtæki í samkeppni við Íslandspóst ohf. hafa haldið því fram í fyrri tölublöðum Viðskiptablaðsins að ríkisfyrirtækið hafi veitt röng svör þegar leitað var til þess vegna lánveitingar Íslandspósts til dótturfélags síns, ePósts ehf. Þá telja þau jafnframt að fyrirtækið ástundi mjög ósanngjarna samkeppni við einkafyrirtæki.

Íslandspóstur fer með einkarétt íslenska ríkisins í dreifingu almennra bréfa undir 50 gr. ásamt uppsetningu, rekstri póstkassa og útgáfu frímerkja. Hvað alla aðra póstþjónustu varðar er Íslandspóstur hins vegar í samkeppni við aðra aðila á markaðnum. Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, vísar ásökunum á bug og segir fyrirtækið jafnframt hafa gengið lengra en því sé skylt þegar komi að því að gera grein fyrir flóknum rekstri sínum.

Reynir ætti að vita betur

Hvernig svarið þið almennt þeim ásökunum að þið stundið ósanngjarna samkeppni við önnur fyrirtæki á almennum markaði?

„Við höfum reyndar svarað þessum ásökunum í mörg ár. Það hefur bæði verið gert í ársskýrslum og í blaðaviðtölum. Einn helsti gagnrýnandi okkar á síðustu árum, Reynir Árnason, framkvæmdastjóri Póstmarkaðarins, stígur nú fram undir nafni og er það út af fyrir sig gott. Póstmarkaðurinn var í meirihlutaeign Samskipa, síðast þegar ég vissi, og er hluti af þeirra rekstri í samkeppni við Íslandspóst. Reynir starfaði um árabil sem forstöðumaður hjá Íslandspósti, en hann hefur ekki átt samleið með fyrirtækinu sl. áratug. Hann ætti því að vita betur um málefni póstþjónustunnar en eftir honum er haft.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.