Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe er sagður standa frammi fyrir uppreisn íslenskra bænda eftir kaup á 39 íslenskum bújörðjum frá árinu 2016 fyrir 36 milljónir punda í breska blaðinu Daily Mail . Á núverandi gengi samsvarar það 6,3 milljörðum íslenskra króna, en fjármhæðin kemur fram í reikningum eignarhaldsfélags hans fyrir starfsemina hér á landi, Halicilla.

Viðskiptablaðið sagði frá kaupum hans í árslok 2016 á Grímsstöðum á Fjöllum , sem kínverski auðjöfurinn Huang Nubo hafði falast eftir, en jörðin var auglýst á 780 milljónir króna. Ratcliffer er meðal þeirra erlendu auðmanna sem augum var beint að sérstaklega í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út fyrir áramót.

Umfjöllunin í Daily Mail fjallar um það að ný löggjöf hér á landi sem sé meðal annars tilkomin vegna mikilla landakaupa Ratcliffe og annarra auðjöfra á Íslandi geti þýtt að hann muni ekki geta keypt meira land. Samkvæmt lögunum sem samþykkt voru í sumar verður landeigandi sem á 10 þúsund hektara eða meira að fá samþykki ráðherra fyrir frekari landakaupum.

Vitnað er í umfjölluninni í Gísla Ásgeirsson framkvæmdastjóra veiðifélagsins Strengur sem Ratcliffe stýrir um að það væru „fáránlegar grunsemdir um ástæðurnar fyrir landakaupum milljarðamæringsins, en eina markmið hans væri til verndar“.

Ratcliffe, sem er 68 ára gamall, er fimmti ríkasti maður Bretlands og er auður hans metinn á um 12,2 milljarða breska punda, eða sem samsvarar 2.144 milljörðum, eða 2,1 billjón íslenskra króna á núverandi gengi.

Í kjölfar kaupa Ratcliffe á jörðinni á Grímsstöðum fóru stjórnvöld hér á landi að skoða takmörkun jarðeignar útlendinga hér á landi, en könnun frá sumrinu 2019 sýnir að yfir 80% aðspurðra vildu þá setja skorður við þeim.

Viðskiptablaðið sagði sama sumar eftir kaup á jörðinni Brúarlandi 2 , að Ratcliffe segði tilganginn með kaupunum vera að vernda íslenska laxastofninn og gera veiðarnar í ánum þær bestu í heiminum. Ratcliffe er sagður mikill stuðningmaður úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu í umfjöllun Daily Mail, en hann sé búsettur í Mónakó, og stjórni þaðan olíuefnafyrirtæki sínu Ineos.

Jafnframt er fjallað um þær ár sem Ratcliffe hefur keypt með landakaupunum hér, þar á meðal Hofsá, þar sem Karl Bretaprins hafi einu sinni veitt, eins og sést í nýjustu seríu þáttaraðarinnar The Crown. Georg H.W. Bush fyrrum forseti Bandaríkjanna hafi jafnframt veitt í ánni Selá sem hann hafi lýst sem „einstaklega fallegri“.

Sagt er frá því að Ratcliffe eigi veiðiréttindi í fjórum öðrum aðalám norðausturlands, Hafralónsá, Svalbarðsá, Mjófarðará og Vesturdalsá.

Í umfjölluninni er vitnað í Jóhannes Sigfússon 67 ára gamlan bónda sem á 7.400 hektara fjárbú nálægt Hafralónsá sem fjölskylda hans hafi stundað búskap á frá árinu 1880 að hann þekki nú ekki Ratcliffe, „en það er ekki gott fyrir einn mann að kaupa svona mikið land“.

Loks er einnig vitnað í Sigrúnu Davíðsdóttur blaðamann sem löngum hefur verið búsett í Bretlandi og flutt m.a. pistla í Ríkisútvarpinu um málefni líðandi stundar þar um að Ratcliffe sé orðinn langstærsti landeigandinn hér á landi.

„Hann á engar tengingar við samfélagið og hefur hann skappað miklar áhyggjur almennings yfir framtíðarnotkun landsins,“ segir Sigrún. „Árnar okkar eru verðmætar eignir og hefur verið farið vel með þær, svo þó það sem Jim Ratcliffe sé að bjóða sé gott, þá er það ekki nauðsynlegt, og það þýðir að bændur eru að missa stjórn á landinu, ánum og hagnaðinum af veiðiréttinum.“

Hér má sjá frekari fréttir um Ratcliffe og umsvif hans hér á landi og erlendis: