Farsæl niðurstaða hlutafjárútboðs Icelandair smitaði ekki frá sér inn á Aðalmarkað kauphallarinnar en Úrvalsvísistalan (OMXI10) lækkaði um 1,31% og stendur í 2.139 stigum. Heildarvelta jókst þó talsvert samanborið við undanfarna daga og nam 1,6 milljörðum króna.

Sjá einnig: Boð upp á 37 milljarða í Icelandair

Mest velta var með hlutabréf Reita um 260 milljónir króna í fimmtán viðskiptum og hækkuðu bréf félagsins um 0,64%, eitt af tveimur félögum sem hækkuðu í viðskiptum dagsins. Stjórn félagsins leggur til að á hluthafafundi Reita, sem haldinn er 22. september næstkomandi, verði stjórn þess heimilt til að hækka hlutafé félagsins um 120 milljónir hluta.

Næst mest velta var með hlutabréf Marel sem lækkuðu um 1,69% og kosta nú 700 krónur hvert. Bréf félagsins hafa hækkað um átján prósent á þessu ári. Markaðsvirði félagsins er um 540 milljarðar króna.

Í viðskiptum dagsins lækkuðu hlutabréf Skeljungs mest eða um 2,5% sem standa í 8,18 krónum hvert. Næst mest lækkun var á bréfum Haga um 2,29% og þriðja mest lækkun var á bréfum Festi um 2,05%.

Virði hlutabréfa Icelandair breyttist ekki í viðskiptum dagsins og kostar hvert bréf 1,2 krónur. Umframeftirspurn í hlutafjárútboði félagsins, sem lauk í gær, nam 85%. Eignarhlutur almenna fjárfesta verður um helmingur í kjölfar útboðsins en alls verða hluthafar félagsins um ellefu þúsund.

Gert er ráð fyrir að nýju hlutirnir í Icelandair verði teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland eigi síðar en 12. október næstkomandi.