Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 2,97% í dag og endaði í 1.712 stigum. Þá hefur vísitalan lækkað um 8,96% frá áramótum.

Ekki varð nein hækkun á gengi hlutabréfa í dag. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um síðustu daga var kosið um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í síðustu viku og niðurstöður kosninganna voru fylgjandi útgöngu. Útgangan er þá talin geta haft einhver áhrif á efnahag Íslands.

Mest lækkaði gengi bréfa Icelandair, eða um 3,71% í viðskiptum sem hljóða upp á milljarð króna. Verð á hvert bréf félagsins er þá 29,85 krónur. Þá lækkaði einnig gengi bréfa Marel um 3,15% í viðskiptum upp á tæpar 610 milljónir króna. Verð á hvern hlut félagsins er 246 krónur.

Heildarvelta á hlutabréfamarkaði í dag var rúmlega 2,8 milljarðar króna. Heildarvelta á skuldabréfamarkaði var rúmega 2,1 milljarðar króna.

Hlutabréfavísitala GAMMA lækkaði um 2,9% í dag í 2,8 milljarða króna viðskiptum.

Skuldabréfavísitala GAMMA lækkaði lítillega í dag í 2,1 milljarða króna viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 0,9 milljarða króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,1% í 1,2 milljarða króna viðskiptum.