Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, OMXI10, lækkaði um 1,06% í tæplega 3,5 milljarða viðskiptum og stendur nú 2123,3 stigum. Ákvörðun peningastefnunefndar seðlabankans um að halda stýrivöxtum óbreyttum virðist ekki hafa farið ýkja vel í markaðsaðila en 15 félög af 19 lækkuðu í viðskiptum dagsins.

Mest lækkun var á bréfum Sýnar sem lækkuðu um 2,3% í 103 milljóna viðskiptum. Þá lækkuðu bréf Reita um 1,5% í 217 milljóna viðskiptum og bréf Símans um 1,3% í 335 milljóna viðskiptum.

Mest hækkun var á bréfum Iceland Seafood sem hækkuðu um 0,9% í 21 milljóna viðskiptum auk þess sem bréf Eimskip hækkuðu um 0,8% í 94 milljóna viðskiptum.

Mest velta var með bréf Festi sem lækkuðu um 0,8% í 451 milljóna viðskiptum en flest viðskipti voru með bréf Icelandair sem lækkuðu um 1,16% í 322 milljóna viðskiptum en fjöldi viðskipta voru 38 talsins.

Krafan hækkaði

Eins og oft vill verða á vaxtaákvörðunardegi var talsvert fjör á skuldabréfamarkaði en velta dagsins nam 17,3 milljörðum króna. Líkt og á hlutabréfamarkaði tóku fjárfestar ekki sérlega vel í ákvörðun peningastefnunefndar en ávöxtunarkrafa á verðtryggðum ríkisbréfum á gjaldaga 2026 og 2030 hækkaði um 10 punkta (0,1 prósentustig) auk þess óverðtryggð ríkisbréf hækkuðu um 5-14 punkta.