Hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðurinn enduðu daginn í rauðum tölum. Úrvalsvísitalan (OMXI8) lækkaði um 1,5% í 1,5 milljarða króna viðskiptum á hlutabréfamarkaði. Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði lítillega eða um 0,02% í 2,4 milljarða króna viðskiptum. Heildarvelta dagsins nam 3,9 milljörðum króna.

Alls lækkaði gengi 14 félaga á hlutabréfamarkaði í dag. Mest lækkun varð á gengi HB Granda, eða 2,2% í rúmlega 53 milljóna króna viðskiptum. Næstmest lækkun varð á gengi bréfa Eikar fasteignafélags (2%) og svo Haga (1,9%). Gengi VÍS stóð í stað en gengi bréfa í Origo hækkaði um 0,2%.

Velta á First North nam 6,6 milljónum króna og var hún eingöngu með bréf Iceland Seafood International, sem lækkuðu um 0,7% í verði í dag.

Á skuldabréfamarkaði hækkaði ávöxtunarkrafan um 2 til 10 punkta á öllum óverðtryggðum ríkisbréfum nema RIKB 25 0612, sem stóð í stað. Engin breyting varð á kröfu verðtryggðra bréfa fyrir utan RIKS 30 0701, sem lækkaði um 7 punkta.