Þó síðasti áratugur hafi verið tími góðrar ávöxtunar fyrir íslenska lífeyrissjóði stóð síðasta ár upp úr með nærri 12% raunávöxtun eigna sinna áætlar Greining Íslandsbanka upp úr tölum frá Seðlabanka Íslands. Telur bankinn þó að með lækkun vaxta hérlendis sem erlendis verði vaxandi áskorun fyrir sjóðina að viðhalda viðmiði um 3,5% raunávöxtun.

Bankinn segir ávöxtun síðasta árs vera langhæstu raunávöxtun sjóðanna undanfarinn áratug, en árin 2010 til 2018 var raunávöxtunin að jafnaði 4,4%, en rétt um 5% ef árið 2019 er tekið inn í tölurnar. Hvort tveggja er talsvert yfir 3,5% viðmiðinu fyrir raunávöxtun sjóðanna.

Í heildina jukust eignir sjóðanna um 714 milljarða króna á síðasta ári, sem samsvarar tæplega 17% vexti í krónum talið, en þá eru iðgjöld, lífeyrisgreiðslur og rekstrarkostnaður meðtalin.

Námu eignirnar 4.959 milljörðum króna í árslok 2019, eða sem nemur um það bil 167% af vergri landsframleiðslu. Þar af eru innlend hlutabréf um 14% og erlendar eignir, að langstærstum hluta í formi beinnar og óbeinnar hlutafjáreignar nema 30% af heildareignum. Í ársbyrjun var erlenda hlutabréfaeignin ríflega 23% heildareigna.

Síðasta ár var nefnilega almennt gjöfult fyrir verðbréfafjárfesta, en þannig hækkaði Úrvalsvísitala Kauphallarinnar yfir innlend hlutabréf um ríflega 31%, en heimsvísitala MSCI alþjóðlegra hlutabréfamarkaða hækkaði um 24%.

En utan hlutabréfa nam fjármögnun íbúðalána landsmanna rúmlega 29% af heildareignum lífeyrissjóðanna, eða sem nam alls 1.445 milljörðum króna um síðustu áramót. Höfðu þá útistandandi sjóðfélagalán vaxið úr 170 milljörðum króna um áramótin 2015 til 2016 í 519 milljarða, en þess utan voru 670 milljarðar í formi skuldabréfa Íbúðalánasjóðs og forvera hans og loks 256 milljarðar í sértryggðum skuldabréfum bankanna.