Helgi Már Þórðarson, framkvæmdastjóri aha.is, segir ákveðna árstíðarsveiflu í rekstri fyrirtækisins. „Við seljum ofboðslega mikið af gjafabréfum síðustu fjóra mánuði ársins, alveg brjálæðislega mikið. Fólk kaupir gjafabréf á aha.is á hóteli eða veitingastað eða í spa eða snyrtistofu eða eitthvað svoleiðis, og prentar út heima hjá sér,“ og setur undir jólatréð.

„Við seljum alveg til klukkan sex á aðfangadag, þá bara slökkvum við því við viljum fara og borða með fjölskyldunum okkar,“ segir Helgi. „Við ætlum í fyrsta skipti núna, því við fáum svo mikið af fyrirspurnum frá Íslendingum búsettum erlendis, að pakka jólagjöfunum inn fyrir fólk líka. Þá pantar þú bara hjá okkur, við pökkum gjöfinni inn og keyrum henni svo heim til þess sem á að fá jólagjöfina.“

Tók rúmt ár að fá leyfi fyrir drónaflugi

Þegar blaðamann bar að garði hjá aha.is var verið að fljúga öðrum af tveimur sendingardrónum fyrirtækisins. „Við erum með leyfi til að fljúga með 2,5 kíló í honum,“ segir Helgi Már, en fjöldi opinberra aðila þurfti að veita leyfi fyrir fluginu.

„Þetta tók þrettán eða fjórtán mánaði. Það er tiltölulega fljótt hugsa ég. Það skiptir okkur miklu máli að byrja á þessu þó að þetta sé kannski aðallega í tilraunaskyni núna. Við erum með eina flugleið, hann fer yfir í Skemmtigarðinn,“ segir Helgi Már og bendir til austurs í átt að Grafarvogi, en fyrirtækið er til húsa við Skútuvog. Flugleiðin er að hans sögn aðeins um fjórar mínútur.

„Við settum mat í hann um daginn og hann var sjóð­ andi heitur þegar hann var búinn að fljúga yfir sjóinn.“ Dróninn flýgur í um 60 metra hæð og flýgur eftir fyrirframákveðinni flugleið. Flugmaður er þó ávallt til taks til að taka við stjórn drónans. Dróninn er tæki til að ná markmiðum félagins.

„Aha.is er bara „platform“ eins og Amazon. Um 40% af tekjum Amazon koma frá afhendingu á vöru þriðja að­ ila. Þetta er svolítið líkt bílakjörnunum. Fyrst voru bílasölur úti um allt, en þeir föttuðu það einhvern tíma að það væri betra að hafa bara einn kjarna. Þetta er alveg eins og það sem við erum að gera.“ Tekjur Aha.is koma að hluta af veltu þess sem selt er á síðunni auk þess sem kaupandi greiðir sendingarkostnað. „Sendingarkostnaður á hins vegar eftir að lækka. Þú færð sent frítt heim frá Nettó ef þú fyrirframpantar og kaupir fyrir meira en 15.000 krónur, en með tilkomu dróna, rafbíla og sjálfkeyrandi bíla á sendingarkostnaður bara eftir að lækka.“

Heimsending á vöru getur haft margvísleg og ófyrirséð áhrif, til dæmis á borgarskipulag með því að draga úr kröfum um stór bílastæði fyrir utan verslanir. Opinberir að­ ilar hafa hins vegar ekki kveikt á perunni í þeim efnum. „Nei, það eru mjög fáir sem pikka upp hvað við erum að gera. Fólk getur losað sig við bíl númer tvö því þú færð vöruna bara senda heim.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.