Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur úrskurðað að líkamsræktarstöð beri að endurgreiða viðskiptavini sínum mánaðarlegar greiðslur yfir tímabilið mars til ágúst á síðasta ári. Af upplýsingum sem fram koma í úrskurðinum að ráða og fyrri umfjöllun um deilurnar í fjölmiðlum er ljóst að líkamsræktarstöðin sem um ræðir er Reebok Fitness.

Í stuttu máli eru málavextir þeir að fulltrúi Reebok Fitness setti sig símleiðis í samband við viðskiptavin þann er málið sótti, í nóvember árið 2019 og bauð henni gjaldfrjálsa áskrift að stöðinni til áramóta, gegn því að hún kæmi aftur í viðskipti, en hún hafði áður verið í viðskiptum við stöðina án bindingar um nokkurra ára skeið.

Viðskiptavinurinn mun ekki hafa gert sér grein fyrir að samningurinn væri bindandi til tólf mánaða fyrr en í febrúar árið 2020, þegar hún hugðist segja upp áskrift sinni, en var synjað á grundvelli bindingarinnar. Taldi hún líkamsræktarstöðina ekki hafa upplýst sig um bindinguna í símtalinu og vísaði til þess að slagorð stöðvarinnar væri „engin binding". Reebok Fitness benti aftur á móti á að viðskiptavinurinn hefði fengið skilmála senda sem kveða á um bindinguna senda rafrænt og að hún hefði samþykkt skilmálana með rafrænni undirritun.

Misræmi í samningi og skortur á upplýsingum

Í niðurstöðu kærunefndar kemur fram að misræmi sé í áskriftarsamningi Reebok Fitness hvað varðar möguleika á uppsögn. Þar segi á einum stað að samningnum verði ekki sagt upp fyrr en eftir bindingu á samningstíma, en á öðrum stað að samningi megi segja upp með 3 daga fyrirvara sem miðast við næstu mánaðamót frá uppsögn.

Þá kemur fram í niðurstöðu að í samningnum sé ekki getið upplýsinga um rétt neytanda til að falla frá fjarsölusamningi innan fjórtán daga, en samkvæmt lögum um neytendasamninga framlengist sá réttur um 12 mánuði eftir upphaflega fjórtán daga frestinn.

Reebok beri hallann af óskýrum ákvæðum

Í niðurstöðu kærunefndar segir að ekki verði séð að varnaraðili hafi veitt sóknaraðila upplýsingar um bindingu og möguleika á uppsögn samningsins með skýrum og greinargóðum hætti í samræmi við lög um neytendasamninga. Þá segir að varnaraðili, sem samdi samninginn og skilmála hans einhliða, verði að bera hallann af því hversu óskýr og ósamrýmanleg ákvæði samningsins eru. Þá verði einnig að líta til þess að í samningi málsaðila skorti upplýsingar sem seljanda ber að afhenda samkvæmt lögum um neytendasamninga.

Loks er vísað til þess að ekki verði ráðið af gögnum málsins að líkamsræktarstöðin hafi veitt viðskiptavininum upplýsingar um rétt sinn til þess að falla frá kaupunum og því hafi frestur viðskiptavinarins til þess að falla frá samningnum ekki verið liðinn í febrúar árið 2020, enda framlengdist fresturinn um 12 mánuði vegna þess að viðskiptavinurinn var ekki upplýstur.

Komst kærunefndin því að þeirri niðurstöðu að viðskiptavininum hefði verið heimilt að segja samningnum upp á þeim tíma og að Reebok Fitness bæri að endurgreiða henni mánaðarlegar greiðslur að fjárhæð 5.990 krónur frá mars til ágúst árið 2020, samtals 35.940 krónur.

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa skipuðu í þessu máli þau Hildur Ýr Viðarsdóttir, lögmaður og formaður kærunefndarinnar, Ívar Halldórsson lögfræðingur og Jón Rúnar Pálsson lögmaður.