Hagnaður Regins nam rúmlega 1,5 milljörðum króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 381 milljón króna hagnað á fyrsta fjórðungi 2020. Munurinn skýrist aðallega af matsbreytingu fjárfestingareigna sem voru um 1,4 milljarðar króna á fyrsta fjórðungi en neikvæð á sama tíma í fyrra um 51 milljón króna. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri fasteignafélagsins.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var um 1,7 milljarða króna og hækkaði um 9% milli ára. Rekstrartekjur Regins námu 2,6 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins. Þar af námu leigutekjur um 2,4 milljörðum króna og jukust um 8% frá sama tímabili í fyrra.

Fjöldi fasteigna Regins í lok tímabilsins var 116 og heildarfermetrafjöldi þeirra eigna er um 385 þúsund. Útleiguhlutfall á safni Regins er um 95% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi.

Bókfært verð fjárfestingaeigna var um 154,4 milljarðar króna í lok tímabilsins og jukust um 7,2 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins. Matsbreytingar fjárfestingareigna hafa verið jákvæðar um samtals 2,8 milljarða króna á síðustu tveimur ársfjórðungum sem vegur um 1,8% af fjárfestingareignum félagsins.

Í byrjun árs keypti Reginn 90% hlutafjár í einkahlutafélaginu Sóltún fasteign ehf., sem á fasteign hjúkrunarheimilisins Sóltúns við samnefnda götu. Félagið hafði gert kaupsamning um kaup á heildareigninni Sóltún 2, að andvirði 3.783 milljóna króna, og var gengið var frá kaupunum 15. janúar síðastliðinn. Kaupin voru að fullu fjármögnuð með lántöku.

Reginn keypti um keypti einnig allt hlutafé í CCI Fasteignum ehf. , en það á 20,6% hlutafjár í Smárabyggð ehf.

Heildareignir samstæðunnar námu 158,6 milljarðar króna í lok mars. Eigið fé félagsins var 48,3 milljarðar króna, skuldir 110,3 milljarðar og eiginfjárhlutfallið var því um 30,5%. Í lok fjórðungsins var handbært fé 2,9 milljarðar króna en fasteignafélagið hafði aðgang að ónýttum lánalínum að fjárhæð 6,7 milljörðum króna.