Fasteignafélagið Reginn tapaði 209 milljónum króna á öðrum fjórðungi ársins en félagið hagnaðist um meira en einn milljarð á sama tímabili í fyrra.

Rekstrartekjur námu 2.346 milljónum og voru um 89 milljónum lægri en í fyrra. Rekstrarkostnaður félagsins nam 861 milljón sem er 59 milljónum meira en á sama tíma á síðasta ári. Rekstrarhagnaður Regins var því um 1,5 milljarðar. Hrein fjármagnsgjöld námu 1,7 milljörðum.

Eignir félagsins námu 148 milljörðum króna í lok fjórðungsins sem er um 1,5 milljörðum lægra en í lok fyrsta ársfjórðungs. Eigið fé var 45 milljarðar, skuldir 103 milljarðar og eiginfjárhlutfall 30,5% þann 30. júní síðastliðinn.

Fjöldi fasteigna í lok tímabilsins var 116 og heildarfermetrafjöldi þeirra eigna er um 377 þúsund. Útleiguhlutfall á safni Regins er um 97% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi. Eignasafn félagsins er að mestu óbreytt á milli tímabila.

Á aðalfundi félagsins 11. mars síðastliðinn var samþykkt að greiddur yrði arður vegna síðasta rekstrarárs að fjárhæð 535 milljónum. Stjórn Regins tók ákvörðun á fundinum um að fresta arðgreiðsludegi frá því sem áður var tilkynnt, þó eigi síður en 11. september næstkomandi. Félagið hyggst boða til hluthafafundar þar sem stjórn mun leggja fram tillögu um heimild til hækkunar hlutafjár til að lágmarka áhrif arðgreiðslunnar á eiginfjár- og lausafjárstöðu félagsins.

Endursemja við leigutaka

Tapaðar tekjur á öðrum ársfjórðungi vegna COVID-19 áhrifa nema 282 milljónum og frestaðar tekjur 180 milljónum, að því er fram kemur í fjárfestakynningu .

Einnig segir að félagið hafi ráðist til aðgerða til að styðja við þá leigutaka sem verst urðu úti vegna áhrifa Covid. Aðgerðirnar náðu til rúmlega hundrað leigutaka en þær voru eftirfarandi:

  • Bakfærsla á leigu yfir ákveðið tímabil.
  • Frestun leigu sem verður greidd á 3 – 12 mánuðum.
  • Tímabundin breyting á fastri leigu yfir í veltutengda leigu, með ákvæði um uppgjör mismunar yfir leigutímann.

Almennt miðuðust aðgerðir til hótelfélaga um að bakfæra leigu í nokkra mánuði og hins vegar að breyta leigusamningum í veltutengda samninga næstu tólf mánuði, með ákvæði um lágmarksfjárhæð. Einnig snéru aðgerðirnar að endurgreiðslu leigu síðar á leigutímanum. Verði veltutengd leiga næsta árið í lágmarki þá getur mismunur á greiddri leigu og samningsbundinni leigu orðið allt að 500 milljónum.

Fjárhagslegt umfang aðgerða vegna bakfærslu á leigu hótelfélaganna er um 195 milljónir en 90 milljónir hjá öðrum en hótelunum. Umfang frestunar á leigu er um 180 milljónir en frestuð leiga ber ekki vexti eða verðbætur.