Í umsögn verðbréfafyrirtækisins Arctica Finance til efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og fleiri lögum er lagt til að fyrirmæli um breytileg starfskjör (kaupauka og kaupaukagreiðslur) nái ekki yfir alla starfsmenn fjármálafyrirtækja.

Bendir félagið á að tilgangur með reglum sem takmarka möguleika fjármálafyrirtækja á að tengja laun starfsmanna við afkomu fyrirtækja sé „ætlað að vinna gegn óæskilegri áhættusækni". Óheft áhættutaka gæti enda haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir fjármálakerfið í för með sér og skapað þörf á inngripi hins opinbera til að verja hagsmuni viðskiptavina, sem sagt innlánseigenda. Verðbréfafyrirtæki hafi hins vegar ekki heimild til að taka á móti innlánum frá almenningi og ekkert hérlent verðbréfafyrirtæki myndi teljast kerfislega mikilvægt.

Í umsögninni segir að niðurstaða vinnuhóps sem vann að undirbúningi og gerð frumvarpsins hafi verið að samræma ákvæði frumvarpsins við það sem almennt tíðkist innan ESB ríkja hvað varði fyrirmæli um breytileg starfskjör, sem í frumvarpinu séu nefnd kaupaukar og kaupaukagreiðslur. „Í þeim tillögum vinnuhópsins fólst að takmarkanir laganna varðandi breytileg starfskjör myndu ekki eiga við um alla starfsmenn fjármálafyrirtækja heldur einungis tiltekinn hóp þeirra," segir í umsögninni.

Í frumvarpinu eins og það liggi fyrir núna hafi þessu hins vegar verið breytt og í því felist að takmarkanir frumvarpsins á heimild fjármálafyrirtækja til greiðslu kaupauka nái til allra starfsmanna fyrirtækjanna. Með því sé gengið mun lengra en almennt gerist innan ESB ríkja við það að takmarka heimild fjármálafyrirtækja til að ákvarða starfsfólki breytileg starfskjör með greiðslum árangurstengdra kaupauka.

Leggur Arctica Finance því til að frumvarpinu verði breytt að þessu leyti, annað hvort til samræmis við tillögur starfshópsins eða með öðrum hætti. „Í því sambandi bendir Arctica á að verulegur munur er á starfsemi fjármálafyrirtækja innbyrðis og röksemdirnar fyrir takmörkunum breytilegum starfskjörum eiga alls ekki við um þau öll. Þannig er eðlismunur á rekstri verðbréfafyrirtækja annars vegar og t.d. innlánsstofnana hins vegar."

„Yrði einfaldlega leyft að falla“

Eins og að ofan segir bendir verðbréfafyrirtækið á að ekkert verðbréfafyrirtæki hér á landi teljist kerfislega mikilvægt. Fall verðbréfafyrirtækis myndi því ekki kalla á inngrip hins opinbera í formi fjárframlags eða ábyrgðar til að verja hagsmuni viðskiptavina þeirra eða stöðugleika á fjármálamarkaði. „Eignir viðskiptavina í vörslu verðbréfafyrirtækja eru ávallt sérgreindar frá eignum þeirra sjálfra og íslenskum verðbréfafyrirtækjum yrði einfaldlega leyft að falla. Af framangreindum ástæðum er vandséð hvaða rök standa til þess að takmarka breytileg starfskjör starfsmanna verðbréfafyrirtækja í formi árangurstengingar launa, í það minnsta þangað til 1 verðbréfafyrirtæki nær þeirri stærð að teljast kerfislega mikilvægt. Þær röksemdir sem nefndar eru í frumvarpinu fá því ekki staðist gagnvart veruleika hérlendra verðbréfafyrirtækja," segir í umsögninni.

Enn fremur bendir Arctica Finance á að langstærsti áhættuþátturinn í rekstri verðbréfafyrirtækja sé rekstraráhætta. Með því að takmarka heimildir slíkra fyrirtækja til að bjóða starfsfólki sínu breytileg starfskjör sem taka myndu mið af raunverulegri afkomu séu verðbréfafyrirtækin í reynd þvinguð til að bjóða hærri föst laun til að halda í hæft starfsfólk, ef þau ætli sér á annað borð að geta boðið starfsmönnum samkeppnishæf launakjör á fjármálamarkaði.

Aukinn fastur launakostnaður fyrirtækjanna auki einfaldlega á fastan rekstrarkostnað fyrirtækjanna sem aftur auki verulega rekstraráhættu þeirra. Niðurstaðan sé því í reynd sú að reglurnar auki á áhættu fyrirtækjanna, en ekki minnki, sem gangi þvert gegn markmiði reglnanna sjálfra.

Mælist Arctica Finance því í umsögninni til þess við efnahags- og viðskiptanefnd að endurskoða reglur frumvarpsins um breytileg starfskjör eða kaupauka, þannig að þær þjóni sem best markmiðum sínum og tilgangi. „Tillaga Arctica er sú að reglurnar verði samræmdar því sem almennt tíðkast í samanburðarlöndum, þannig að takmarkanirnar nái fyrst og fremst til tiltekinna hópa starfsmanna fjármálafyrirtækja, taki til þeirra fjármálafyrirtækja sem móttaka innlán frá almenningi, teljast kerfislega mikilvæg eða þeim fylgi annars konar kerfislæg áhætta og/eða með því að hækka það hlutfall sem fjárhæð breytilegra starfskjara má að hámarki nema af föstum launum."

Sektað um 24 milljónir vegna brota á kaupaukalögum

Í september 2017 lagði Fjármálaeftirlitið (nú Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands) 72 milljóna króna stjórnvaldssekt á hendur Arctica Finance vegna brota á lögum um kaupauka. Verðbréfafyrirtækið lét reyna á lögmæti sektarinnar fyrir dómstólum og lækkaði Landsréttur hana niður í 24 milljónir króna þar sem hann taldi refsiheimild laganna frá 2011 of almennt orðaða til að geta talist til gild refsiheimild. Arctica Finance lagði fram áfrýjunarbeiðni til Hæstaréttar en dómstóllinn hafnaði beiðninni í febrúar á síðasta ári.