Strangar sóttvarnaraðgerðir víða um Evrópu hafa leitt til þess að farþegafjöldi lággjaldaflugfélagsins Ryanair verður minni í vetur en félagið hafði reiknað með. Áður var reiknað með að farþegar yrðu 38 milljónir á núverandi rekstrarári en nú býst félagið við að farþegafjöldinn verði nær 30 milljónum. Þá gerir flugfélagið ekki ráð fyrir að ná svipuðum umsvifum og fyrir COVID-19 fyrr en næsta haust. Reuters greinir frá þessu.

Michael O'Leary, forstjóri Ryanair, kveðst reikna með að farþegum muni svo fjölga á næsta fjárhagsári, sem hefst 1. apríl 2021, upp í á bilinu 80-130 milljónir. Hann bendir þó á að þetta muni velta á því hvernig gengur að kveða niður COVID-19 faraldurinn.

Þá reiknar hann með að með að umsvif flugfélagsins á næsta ári verði á bilinu 60-80% af umsvifum félagsins árið 2019. Þegar líða taki á árið 2021 og hausta tekur vonast hann svo til þess að umsvifin verði orðin svipuð og árið 2019.