Fyrirtækið EM Orka áformar að reisa allt að 130 MW vindorkugarð, með 35 vindmyllum á 3,3 ferkílómetra svæði 500 metrum yfir sjávarmáli í landi Garpsdals við Gilsfjörð í Reykhólahreppi.

Vindmyllurnar verða allt að 150 metrar að hæð, að meðtöldum spöðunum, en svæðið er sunnan megin við núverandi þjóðveg yfir Þröskulda, á milli Gilsfjarðar og Steingrímsfjarðar.

EM Orka er íslenskt fyrirtæki í eigu EMP Holdings, sem er sameiginlega í eigu EMP IN og Vestas, en Vestas er einn stærsti vindmylluframleiðandi heims með 94 GW framleiðslugetu í79 löndum.

EMP var stofnað árið 2015 og mun einbeita sér að vind- og sólarorku. Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar í Dublin, Írlandi, er sagt búa yfir mikilli reynslu á þróunarverkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku á alþjóðavettvangi í matskýrslu Mannvit um umhverfisáhrif vindorkugarðsins.

Vindmyllugarður í Gilsfirði
Vindmyllugarður í Gilsfirði
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Áætlað framkvæmdasvæði vindmyllugarðsins er innan ljósgula rammans, en appelsínugula línan táknar veg sem lagður verður upp að svæðinu.