Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,08%, niður í 2.058,87 stig í samtals 1,8 milljarða viðskiptum í kauphöllinni í dag. Einungis fjögur félög hækkuðu í virði, þrjú til viðbótar stóðu í stað, en restin lækkaði í virði svo nokkuð rautt var um að litast í kauphöllinni í dag.

Mest lækkun var á gengi bréfa Reita, eða um 1,76%, niður í 72,55 krónur, en jafnframt voru mestu viðskiptin með bréf félagsins eða fyrir 360,2 milljónir króna. Næst mest lækkun var á gengi annars fasteignafélags, Eikar, en félagið lækkaði um 1,50%, í þó ekki nema 24 milljóna króna viðskiptum og fór gengið niður í 7,87 krónur.

Loks lækkaði Eimskip þriðja mest, eða um 1,42%, í 43 milljóna króna viðskiptum, og var lokagengi bréfa félagsins 174,0 krónur. Lækkun þriðja atvinnuhúsnæðisfasteignafélagsins, Reginn, var nokkuð minni en hinna tveggja, eða um 0,48%, niður í 20,60 krónur, í 150 milljóna króna viðskiptum.

Mest hækkun var á gengi bréfa Marel, eða fyrir um 0,51%, í 67 milljón króna viðskiptum og er gengi bréfa félagsins nú 593,0 krónur. Næst mest var hækkun bréfa Icelandair, eða um 0,40%, í 125 milljón króna viðskiptum, og fór það í 7,58 krónur hvert bréf.

Íslenska krónan veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum í dag, nema hún stóð í stað gagnvart evru, og fæst hún nú á 137,25 krónur. Bandaríkjadalurinn styrktist mest, eða um 0,22% í 124,60 krónur.