Samkvæmt rekstrarreikningi jókst hagnaður RARIK á síðasta ári um 11% frá árinu 2017 og var 2.781 milljón króna. Samkvæmt tilkynningu með uppgjörinu var reksturinn í samræmi við það sem áætlanir gerður ráð fyrir. Áhrif hlutdeildarfélagsins Landsnets hækkuðu milli ára og voru reiknuð 909 milljónir króna sem er aukning frá árinu áður þegar þau voru reiknuð 670 milljónir króna. Heildarhagnaður að teknu tilliti til þýðingamunar hlutdeilarfélags nam 3.712 milljónum króna.

Rekstrartekjur hækkuðu um tæplega 12% frá fyrra ári og námu 16,6 milljörðum króna og rekstrargjöld hækkuðu um 10% og voru 13 milljarða króna. Rekstrarhagnaður (EBIT) síðasta árs nam þannig 3.615 milljónum króna sem er rúmlega 20% hækkun frá fyrra ári.

Veikari króna og aukin verðbólga á síðasta ári gerðu það að verkum að fjármagnsliðir voru umtalsvert óhagstæðari en á fyrra ári, en fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur námu um 1,3 milljarði króna í samanburði við 706 milljónir á árinu 2017.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir RARIK í árslok 65.953 milljónum króna og hækkuðu um 7.488 milljónir króna á milli ára. Heildarskuldir námu 24.821 milljónum króna og hækkuðu um 4.086 milljónir króna frá fyrra ári. Eigið fé var 41.132 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall því 62,4% samanborið við 64,5% í árslok 2017. Fjárfestingar ársins að frádregnu söluandvirði seldra rekstrarfjármuna námu 3.695 milljónum króna, sem er minna en áætlað var en 297 milljónum króna hærra en árið á undan.

Stjórn RARIK ohf. leggur til við aðalfund að greiddar verði 310 milljónir króna í arð til eiganda RARIK sem er Ríkissjóður Íslands.

Í tilkynningunni segir jafnframt að horfur í rekstri RARIK á árinu 2019 séu góðar. Gert sé ráð fyrir að hagnaður ársins af reglulegri starfsemi samstæðunnar verði sambærilegur og á árinu 2018 en að fjárfestingar aukist talsvert á milli ára.