Samkvæmt nýbirtum ársreikningi WOW air fyrir árið 2017 námu tekjur félagsins 486 milljón dollurum, tæpum 52 milljörðum króna á gengi þess árs, og jukust um 58% milli ára. Rekstrarkostnaður nam 424 milljónum dollara, og næstum tvöfaldaðist milli ára. Að teknu tilliti til afskrifta, fjármagnsliða og skatta varð 4,3 milljarða hagnaður árið 2016 því að 2,4 milljarða króna tapi 2017.

Af rekstrarkostnaði vó eldsneytiskostnaður þyngst, en hann tvöfaldaðist úr 61 milljón dollara í 122 milljónir, og viðhald flugvéla hátt í þrefaldaðist og nam 42 milljónum. Annar flugrekstrarkostnaður nam 130 milljónum og jókst um 73%.

Laun og launatengd gjöld tæplega tvöfölduðust í 88 milljónir dollara, og greidd laun tvöfölduðust og námu 61 milljón dollara. Ársverkum fjölgaði um rúm 80% í 881, og meðallaun námu því 617 þúsund krónum á mánuði, og lækkuðu um rúm 5% milli ára, sé miðað við ársmeðalgengi hvers árs fyrir sig. Þess má þó geta að í dollurum talið hækkuðu greidd laun um 7% milli ára.

Laun og þóknanir til stjórnenda námu rúmum 250 milljónum króna og jukust um fjórðung milli ára.

Í skýrslu stjórnar er sagt frá því að á árinu hafi félagið haldið áfram að vaxa og flogið til 32 áfangastaða og flugvélaflotinn hafi talið 17 flugvélar í árslok. Þá er sagt frá því að heildarfjöldi farþega hafi vaxið úr 1,6 milljónum í 2,8 á árinu.