Fulltrúar eins elsta eignarstýringarfyrirtæki heims segja nú kjörinn tíma fyrir íslenska stofnanafjárfesta að fjárfesta og dreifa áhættu sinni á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum. Aukinn vaxtamunur víða um heim gefur kjörið tækifæri til að auka hagnað af skuldabréfakaupum með virkri stýringu.

Íslenskir lífeyrissjóðir hafa hingað til í afar takmörkuðum mæli fjárfest í skuldabréfum utan landsteinanna, heldur fyrst og fremst í hlutabréfum. Nú er hins vegar kjörinn tími fyrir íslenska stofnanafjárfesta að dreifa áhættu sinni með fjárfestingum á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum, að mati sérfræðinga MFS Investment Management.

Bandaríska fyrirtækið MFS Investment Management, áður Massachussets Financial Services sem stofnað var árið 1924, hefur starfað með stærstu stofnanafjárfestum Íslands, það er lífeyrissjóðunum í hartnær tvo áratugi. Fyrirtækið rekur elsta starfandi verðbréfasjóð heims, The Massachussets Investors Trust og í heildina var félagið með hátt í 450 milljarða dala í eignastýringu um mitt ár 2017.

Auk Per Künow sem lengi hefur starfað með íslenskum stofnanafjárfestum, enda ábyrgur fyrir málaflokknum hjá fyrirtækinu á Norðurlöndunum, komu sjóðstjórarnir Pilar Gomez-Bravo og Owen Murfin til landsins á dögunum að heimsækja íslenska stofnanafjárfesta og ræða við þá um aukin tækifæri á erlendum skuldabréfamörkuðum.

Pilar segir tímasetninguna núna rétta fyrir stofnanafjárfesta að horfa til þess að fjárfesta í alþjóðlegum skuldabréfum. „Á sama tíma og peningastefna margra landa er að verða aðhaldssamari opnast mikil tækifæri fyrir félög sem beita virkri stýringu fjárfestinga til skapa góða arðsemi,“ segir Pilar sem er ábyrg fyrir alþjóðlegum fjárfestingum hjá MFS.

Sérstakar aðstæður á Íslandi

„Með því að vera með dreift eignarsafn sem spannar fjárfestingar um allan heim, geta fjárfestingarnar bæði skilað aukinni áhættuþóknun sem og dregið úr heildaráhættu. Það sem er sérstakt við íslenska markaðinn er að nú þegar fjármagnshöftunum hefur verið aflétt opnar það ný tækifæri og nýjar áskoranir fyrir íslenska stofnanafjárfesta.

Ég veit ekki til þess að mörg þróuð ríki hafi haft fjármagnshöft og er aflétting þeirra ástæðan fyrir heimsókn okkar. Auðvitað er eðlilegt fyrir lífeyrissjóði til dæmis að einbeita sér að fjárfestingum í skuldabréfum innanlands. Ég held þó að við séum að sjá aukinn áhuga hjá stofnanafjárfestum hér á landi að skoða tækifæri í skuldabréfum fyrir utan landið, en ekki eingöngu á hlutafjármörkuðum eins og hefðbundið er að þeir einblíni á til að byrja með.“

Owen tekur undir með Pilar og segir eðlilegt þar sem Ísland sé hávaxtaland með mjög samkeppnishæfa vexti við umheiminn, þá sérstaklega í samanburði við Evrópu, að lífeyrissjóðir hafi hingað til einblínt á að fjárfesta innanlands þegar kemur að skuldabréfum.

„En það er tvennt sem gott er að hafa í huga í þessu samhengi. Annars vegar að fjárfestar eru alltaf að leita að tækifærum til að dreifa áhættunni. Núna þegar stýrivaxtastefnan er jafnmismunandi og raun ber vitni hjá seðlabönkum víðs vegar um heiminn, þá getur ávöxtunin af erlendum skuldabréfum verið mjög mismikil, og það er þessi dreifing sem er eftirsóknarverð,“ segir Owen.

„Ástæðan er sú að þegar fjárfestir ver áhættu af erlendum skuldabréfum aftur í heimamyntina, þá getur fjárfestir í raun fengið hagnað af því. Þannig virka einfaldlega áhættuvarnir með gjaldeyri, ef þú ert í hávaxtaumhverfi og fjárfestir erlendis. Svo við erum að hvetja íslensku lífeyrissjóðina til að hugsa um heildarhagnaðinn, það er ávöxtunina af erlendu skuldabréfunum eftir áhættuvörnina aftur yfir í krónur, í stað þess að horfa einungis á ávöxtunina í evrum.

Sem dæmi má hugsa sér að ef þú ert evrópskur eða japanskur fjárfestir þar sem innanlandsvextir eru mjög lágir. Þá getur þú ekki búist við að kaupa fyrir hærri vexti erlendis án þess að taka jafnframt á þig aukna áhættu, en til viðbótar þarftu að taka gjaldeyrisáhættu af því að fjárfesta utan heimamynntar. Þessi gjaldmiðlaáhætta flöktir mikið.

Skuldabréfafjárfestar, og svo sem hlutabréfafjárfestar líka þó í minna mæli, reyna því að verja sig þeirri áhættu til baka og þar með fá þeir annaðhvort aukinn hagnað eða tapa honum. Þannig munu evrópskir og japanskir fjárfestar geta tapað ávöxtun af skuldabréfunum með því að áhættaverja sig aftur í eigin gjaldmiðla sem íslenskir fjárfestar gætu hagnast á með því að koma frá hinni hliðinni í áhættuvörnina.“

Tækifæri í nýmarkaðsríkjum

Pilar segir að þarna þurfi fjárfestarnir að horfa á vaxtamuninn milli heimalands fjárfestisins og landsins sem skuldabréfin eru keypt frá, en margir þættir geta þar sagt til um hvort tap verði eða gróði af áhættuvörninni sjálfri. Meta þurfi jafnframt hve mikil áhættuvörnin sé og annað í samstarfi við viðskiptavinina, enda felist tækifærin í að meta þróunina rétt. „Við erum alltaf að skoða áhættuþóknun út um allan heim, það er hvort innbyggt sé inn í verð skuldabréfanna hvort við séum að fá greitt fyrir þá auknu áhættu sem felst í undirliggjandi aðstæðum,“ segir Pilar.

„Gildir það hvort sem við séum að kaupa bréf frá Tyrklandi, Ítalíu eða Grikklandi í stað til dæmis mun öruggari japanskra skuldabréfa. Við skoðum stýrivaxtastefnuna í landinu, auk grundvallaratriða í hagkerfinu og væntingar. Við erum að sjá mikið af áhugaverðum valkostum í ýmsum þróunar- og nýmarkaðsríkjum núna, en við þurfum að vera mjög valkvæð hvar við fjárfestum, í stað þess að kaupa heilt yfir í þeim öllum. Tyrkland er til dæmis fullkomið dæmi um það, en eftir sumarið greip seðlabankinn þar í landi inn í þvert á hatramman áróður Erdogans forseta sem aftur réttlætti fjárfestingar okkar þar svo við fórum dýpra inn í þær stöður.“

Bæði eru þau sammála um það að aðalatriðið sé að velja vel, hvort sem það sé við kaup á skuldabréfum ríkja eða fyrirtækja. „Auðvitað hefur verið umræða um hvort hægt sé að réttlæta virka stýringu eignasafna enda hefur þróunin verið í átt að ódýrari vísitölusöfnum. En við teljum okkur geta sýnt fram á að virk stýring eins og okkar geti búið til meiri arðsemi fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Owen að lokum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .