Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Reykjanesbær var stofnaður árið 1994 við sameiningu Keflavíkurkaupstaðar, Njarðvíkurkaupstaðar og Hafnahrepps. Sveitarfélagið er eitt það fjölmennasta á Íslandi og líklegast hafa fá sveitarfélög farið í gegn um jafn kvikar sviptingar á síðustu árum. Rætt var við Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, til þess að fræðast nánar um stöðu mála.

Nálgast 18 þúsund íbúa

Kjartan Már hefur gegnt sínu starfi frá síðari hluta 2014, en hann segir mikið hafa breyst á þessum stutta tíma. „Núna er allt á mikilli ferð. Fólksfjölgun hefur verið gífurleg og fasteignamarkaðurinn hefur tekið snarlega við sér. Hann var frosinn hér eins og annars staðar eftir hrun. Núna er eftirspurn aftur á móti mikil og hækkanir í hlutfalli við það.“

Samkvæmt Gagnatorgi, síðu sem Reykjanesbær heldur úti, bjuggu 17.668 íbúar í sveitarfé- laginu í nóvember 2017. Samkvæmt sömu síðu bjuggu aðeins 14.907 í Reykjanesbæ í mars árið 2015. Ekki var hægt að sækja gögn lengra aftur á þessari fyrrnefndu síðu, en fjölgunin nemur því 18,5% yfir þetta tímabil.

Kjartan er afar bjartsýnn á að íbúafjölgunin eigi eftir að halda hressilega áfram á næstu árum. „Gert er ráð fyrir því að fjölgun starfa verði á bilinu 400 til 500 á ári. Það er alveg eitt álver, til þess að setja það í samanburð. Náttúruleg fjölgun vinnuafls nær ekki að anna þessari eftirspurn.“

Hann segir það því gefa auga leið að fólki muni fjölga á svæðinu. „Það er alveg óhjákvæmilegt að fólk þurfi að flytjast hingað. Það þarf líka að koma erlendis frá. Þannig ég sé fram á gífurlega mikla fjölgun hér og bara almennt á Suðurnesjunum.“ Flest störf munu beint eða óbeint tengjast umsvifum á Keflavíkurflugvelli að hans sögn. Þó séu aðrir atvinnuvegir sem spili einnig sinn þátt, til að mynda útgerð og fyrirtæki í orkuiðnaði.

Þrjú meginsvæði

Fasteignamarkaðurinn í Reykjanesbæ hefur verið áhugaverður svo vægt sé tekið til orða. Haustið 2006 bættist til að mynda heil byggð við bæinn þegar bandaríska varnarliðið lét sig hverfa. Miðnesheiði, sem nú nefnist Ásbrú er því eitt helsta íbúðasvæði sveitarfélagsins, en mikið hefur átt sér stað þar í seinni tíð. Þessir atburðir höfðu þó gífurleg áhrif, enda bættust á einni nóttu nær 1.250 íbúðir við íbúðarflóru Reykjanesbæjar. Ekki voru allar íbúðarhæfar, en félög á borð við Heimavelli og Ásbrú Íbúðir hafa verið að aðlaga þær að íslenskum kröfum núna í seinni tíð.

Fyrir alþjóðlegu fjármálakreppuna var einnig mikið byggt á svæðinu, en talsvert af þessum fasteignum enduðu í höndum fjármálastofnana eftir að hrunið skall á. Samkvæmt skýrslu sem Reykjavík Economics vann fyrir Íslandsbanka, átti Íbúðalánasjóður til að mynda 814 íbúðir á svæðinu í lok ágúst 2013. Á þessum tímapunkti voru 295 í leigu, 390 auðar og 124 óíbúðarhæfar eða í byggingu.

Vegna þess mikla fjölda fasteigna sem voru fyrir á svæðinu var ekki mikil þörf á fjölgun fasteigna fyrstu árin eftir hrun. Kjartan segir stöðuna í dag þó vera breytta. „Þessi þrjú helstu svæði sem verið er í framkvæmdum á eru Ásbrú, Innri-Njarðvík, og Hlíðarhverfið sem er fyrir ofan Njarðvík. Við gerum til að mynda ráð fyrir því í aðalskipulagi að allt að 500 íbúðir komi inn á markað- inn í Hlíðarhverfinu.“

Samkvæmt skýrslu Reykjavík Economics eru í dag um 2,5 íbúar á íbúð á svæðinu. Hlutfallið hefur aðeins hækkað en er nú nálægt landsmeðaltali. Í þessari sömu skýrslu kemur einnig fram að um 338 íbúðir hafi verið á fyrri framkvæmdarstigum í byrjun árs 2017. Auk þess voru nær 236 á síðari framkvæmdarstigi á þessu sama tímabili.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignablaðinu, sérblaði Viðskitpablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .