Momentum greiðsluþjónusta ehf. og Gjaldheimtan ehf. voru lægstbjóðendur í útboði Reykjavíkurborgar um innheimtuþjónustu til næstu fimm ára eða 2018 - 2022. Skrifað var undir samning um þessa þjónustu á dögunum. Momentum og Gjaldheimtan hafa sinnt innheimtum fyrir Reykjavíkurborg frá árinu 2006 og þá hefur Gjaldheimtan sinnt innheimtuþjónustu fyrir Reykjavíkurborg frá stofnun félagsins árið 2003.

„Við höfum verið ánægð með samstarfið við Momentum og Gjaldheimtuna og með útboðinu og þessu tilboði þeirra, sem er grundvöllur samningsins, þá hefur náðst að halda þeim álögum sem leggjast á borgarbúa vegna innheimtu vanskilakrafna sem lægstum, hvort sem um milliinnheimtu er að ræða eða löginnheimtu,“ er haft eftir Birgi Birni Sigurjónssyni í tilkynningu.

Davíð B. Gíslason, framkvæmdastjóri Momentum og Gjaldheimtunnar. „Á þeim árum sem við höfum þjónustað Reykjavíkurborg með innheimtur hefur gífurleg þróun átt sér stað, sérstaklega hafa rafrænar vinnslur og sjálfvirkni aukist mikið. Vegna þeirrar þekkingar sem við búum yfir og reynslu á þessu sviði höfum við náð að hámarka nýtingu okkar tækja, hugbúnað og mannafla og við hlökkum til að halda áfram að vera útvörður Reykjavíkurborgar á þessu sviði áfram,“ er einnig haft eftir Davíð B. Gíslasyni, framkvæmdastjóra Momentum og Gjaldheimtunnar.