Forsvarsmenn nýja lággjaldaflugfélagsins Play eru samkvæmt frétt Morgunblaðsins að reyna að smala saman hóp fjárfesta í íslenskri ferðaþjónustu í þeirri von að hægt sé að fá hópinn til að fjárfesta sameiginlega í flugfélaginu. Líkt og áður hefur verið sagt frá þá hefur gengið erfiðlega að fá fjárfesta til þess að taka þátt í hlutafjársöfnun Play.

Aðstandendur Play vonast til þess að með þessu geti félagið tryggt sér stærstan hluta af þeim 1,7 milljörðum króna sem félagið stefnir á að safna frá innlendum fjárfestum.

Í frétt Morgunblaðsins segir jafnframt að fjárfestar sem blaðið hafi rætt við segi að stofnendur félagsins þurfi mögulega að slá af kröfum sínum um helmingseignarhlut í félaginu, eigi markmiðið um að safna 1,7 milljörðum að nást.