Samfélagsmiðillinn Twitter hyggst brátt prófa nýtt stillingaratriði sem gerir notendum miðilsins kleift að stjórna því hverjir geta svarað tístum þeirra eða hreinlega bannar öllum að svara tístinu. Með þessu vill fyrirtækið tryggja að fólki upplifi öryggi þegar það tekur þátt í umræðum á samfélagsmiðlinum. Greint er frá þessu á vef BBC .

Ætla má að þessi aðgerð fyrirtækisins sé til að bregðast við þrýstingi almennings um að samfélagsmiðlar reyni að stemma stigu við svokölluðu netníði (e. cyber-bullying), en einstaklingum sem hafa orðið fyrir barðinu á slíku fer sífjölgandi.

Þetta nýja stillingaratriði, sem verður prófað snemma á þessu ári, mun gera notendum kleift að velja á milli eftirfarandi fjögurra stillinga:

  • Allir geta svarað tísti
  • Þeir sem notandinn er að fylgja geta svarað, auk þeirra sem hann merkir í tístinu
  • Aðeins þeir sem eru merktir geta svarað tístinu
  • Enginn getur svara tísti