Tilraunaverkefnið „Raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins" sem stýrt er af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur þann tilgang að draga fram hæfni starfa sem ekki krefjast sérstakrar menntunar til að auka sýnileika hennar og byggja hæfniþróun starfa á. Samkvæmt Fræðslumiðstöð atvinnulífsins byggist mat á raunfærni á þeirri hugmynd að nám fari fram við margs konar aðstæður og í alls konar samhengi. Allt nám sé verðmætt og því mikilvægt að það sé skjalfest óháð hvar þess hefur verið aflað. Raunfærni sé samanlögð færni sem náð sé með ýmsum hætti í námi, starfi eða einkalífi. Þá sé raunfærnimat staðfesting á þeirri færni sem einstaklinglingur búi yfir og með því opnist möguleikar á að meta færni til styttingar náms eða til stuðnings framgangi í starfi.

Domino´s er meðal þátttakenda í þessu tilraunaverkefni en átta starfsmenn Domino's stunda nú nám í fagnámi verslunar og þjónustu við Verzlunarskóla Íslands. Sigurbjörg Magnúsdóttir, fræðslustjóri Domino's, segir markmið námsins vera að meta til eininga þá þekkingu sem starfsmenn hafa öðlast hjá Domino's og auka þekkingu og færni starfsmanna, meðal annars með því að bæta þann grunn sem byggður hefur verið í þjónustu og rekstri. Verkefnið er unnið í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands en Mímir hefur umsjón með verkefninu.

„Fræðslumálum hefur verið gert hátt undir höfði í starfsemi Domino's undanfarin ár og við höfum tekið fræðslumálin föstum tökum. Þessi vinna hefur lukkast vel en til marks um það var Domino's valinn Menntasproti 2021 af Samtökum atvinnulífsins."

Matið staðfesti hæfni

Hún segir Domino's trúa því að sú þekking sem starfsmenn fyrirtækisins hafi öðlast í störfum sínum sé mjög mikilvæg. Þau sem starfað hafi hjá fyrirtækinu til lengri tíma búi yfir gífurlegri þekkingu á rekstri Domino's og starfsemi fyrirtækisins. „Það skiptir því öllu máli að sú þekking sé metin að verðleikum og raunfærnimatið stuðlar einmitt að því, þar sem það er viðurkenning á þeirri þekkingu og hæfni sem viðkomandi hefur öðlast í gegnum starf sitt. Raunfærnimatið staðfestir að þessi þekking og hæfni sé til staðar," segir Sigurbjörg.

„Allt nám er verðmætt og Domino's leggur mikla áherslu á að veita starfsfólki þjálfun og fræðslu til að byggja upp þekkingu sem nýtist því jafnt innan sem utan vinnustaðarins. Uppbygging þjálfunar hjá Domino's gengur út á stöðugan vöxt, tækifæri og hvatningu til starfsþróunar," bætir hún við.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .