Samtökum olíuframleiðenda (OPEC) hefur enn ekki tekist að ná samkomulagi um magn olíuframleiðslu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Mikill rígur hefur myndast milli nágrannanna og fyrrum samherjanna Sádí Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna (SAF) um hvort auka eigi framleiðslu.

SAF fer fram á leyfi til að framleiða meiri olíu en gert hefur verið ráð fyrir. Rígurinn við Sádí Arabíu er í frétt Wall Street Journal um málið sagður hluti af víðara ósætti á sviði efnahags- og alþjóðamála milli vinaþjóðanna. Krónprinsa arabíuríkjanna tveggja, Mohammed bin Zayed og Mohammed bin Salman, er sagt greina á um stefnu í ýmsum málum, þar á meðal efnahagsmálum.

Afbóka þurfti þriðja fundinn um málið sem halda átti í gær vegna deilnanna og enginn nýr fundur hefur verið bókaður, en sá fyrsti fór fram í byrjun mánaðar. Auk meðlima samtakanna voru helstu fylgihnettir þeirra – með Rússland í fararbroddi – boðaðir á fundinn, en saman mynda löndin hóp sem oft er kallaður OPEC+. Öll lönd í hópnum utan SAF hafa gefið vilyrði fyrir samþykki samningsins, sem fela á í sér framboðsaukningu upp á milljónir tunna á dag.

Olíuverð hefur eins og flest önnur hrávara hækkað mikið síðustu misseri, og í kjölfar fregna af erfiðleikum í samningagerð OPEC+ hefur það tekið enn frekara stökk og hefur nú ekki verið hærra síðan 2018.