Anders Holch Povlsen fæddist árið 1972 og foreldrar hans eru Troels Holch Povlsen og Merete Bech Povlsen. Hjónin opnuðu fyrstu Bestseller verslunina í smábæ á Jótlandi árið 1975, þegar Anders var á þriðja aldursári. Fatakeðjan óx með árunum og má finna fatnað í eigu Bestseller í yfir 70 löndum og yfir tuttugu þúsund verslunum. Félagið rekur meðal annars fataverslanir undir merkjum Vera Moda, Jack & Jones, Outfitters Nation og Name It. Þá er Bestseller stærsti hluthafinn í bresku netversluninni Azos og næststærsti hluthafinn í þýsku netversluninni Zalando. Bestseller er ein af fáum erlendum fataverslunum sem tekist hefur að ryðjast inn á kínverskan fatamarkað. Systurfélag Bestseller hóf starfsemi þar árið 1996 en í dag má finna yfir sjö þúsund verslanir í eigu Bestseller í Kína. Foreldrar Anders gerðu hann að forstjóra fyrirtækisins þegar hann var 28 ára gamall og afhentu honum félagið að fullu. Yngri bróðir hans, Niels, starfar einnig hjá tískuveldinu.

Stærsti landeigandi Bretlands

Anders býr á sveitasetrinu Constantinsborg, skammt fyrir utan Árósa með eiginkonu sinni, Anne Storm Pedersen, og fjórum börnum. Þau kynntust eftir að Pedersen hóf að vinna hjá Bestseller. Anders mætir á Volkswagen Golf til vinnu í höfuðstöðvar Bestseller í bænum Brande á Jótlandi. Þar vill Anders nú byggja Bestseller-þorpið, sem á að vera um 645 þúsund fermetrar að stærð reista hæstu byggingu í Vestur-Evrópu, um 320 metra háan skýjakljúf. Anders er einnig stærsti landeigandi í Bretlandi. Í október var greint frá því að hann ætti um 900 ferkílómetra lands í Skotlandi. Anders hefur gefið gefið út að þau vilji byggja upp svæðið og leyfa náttúrunni, sem rudd hafi verið niður síðustu aldir, að njóta sín. Áhugi Povlsens á óbyggðum Skotlands er sagður hafa hafist eftir fjölskyldufrí á níunda áratugnum.

Forðast kastljós fjölmiðlanna

Fjölskyldufaðirinn, Troels, er enn í fullu fjöri, 69 ára að aldri. Povlsen-fjölskyldan hefur alla tíð látið lítið fyrir sér fara. Þau umgangast fáa úr viðskipta- eða skemmtanalífi Danmerkur, forðast kastljós fjölmiðlanna og veita nær aldrei viðtöl. Þar á eflaust þátt í máli fjárkúgunartilraunir gagnvart fjölskyldunni. Yfir tíu mánaða tímabil árið 1998 var fjölskyldumeðlimum hótað lífláti, af manni sem kallaði sig Hróa hött, myndu þau ekki borga tíu milljónir danskra króna. Eftir að hafa sent fjölda hótunarbréfa, rispað upphafsstafi sína í bíla fjölskyldunnar, og hringt um miðjar nætur braust hann inn í fjölskylduóðalið og skildi eftir hótunarbréf inni í myndaalbúmi fjölskyldunnar, nokkrum metrum frá því sem fjölskyldan svaf. Þegar lögreglan kom loksins höndum yfir hrappinn, sem kom í ljós að væri Kurt Hansen, 34 gamall Dani, var hann á leið aftur að ættaróðalinu vopnaður gasbyssu, rafstuðtæki, handjárnum og eldfimum vökva. Fimm árum síðar, eða árið 2003, var ríflega 21 árs gömlum fjölskylduvini, Thomas Jensen, rænt og er fjölskyldan þess fullviss að þar hafi ræningjarnir talið sig hafa náð höndum yfir annan sona sinna. Til allrar hamingju var Thomas sleppt eftir fimm daga í haldi.

Anders Holch Povlsen

  • Aldur: 46 ára
  • Auðævi: 730 milljarðar króna
  • Uppruni auðsins: Tískuvörukeðjan Bestseller
  • 207. ríkasti maður heims

Nánar er fjallað um ríkustu menn Norðurlandanna í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .