Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leggur til að hlutabréf í Íslandsbanka og Landsbankanum verði dreift til almennings í grein sem hún skrifar í Morgunblaðinu í dag.

Sigríður bendir á að hluthöfum í Kauphöllinni hafa fækkað á síðustu árum með minni þátttöku almennings. Þó hafi orðið viðsnúningur þar á eftir hlutafjárútboð Icelandair á síðasta ári. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur nú til umræðu tillögu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að skrá Íslandsbanka á markað og selja um 25% í bankanum. Með sölunni megi minnka skuldsetningu ríkissjóðs og minnka áhættu ríkisins af því að eiga tvo viðskiptabanka að fullu.

„Þótt sala á 25% hlut í Íslandsbanka sé gott skref þá er ekki nógu langt gengið. Eignarhaldið allt þarf að komast frá ríkinu sem fyrst. Hlutafjárútboð er hins vegar ekki nauðsynlegt til þess arna. Nú er kominn tími til að hrinda í framkvæmd hugmynd sem fyrst var viðruð fyrir mörgum áratugum. Að ríkið afhendi landsmönnum öllum jafnan hlut í bönkunum til eignar,“ segir Sigríður.

Þannig megi til að mynda komast hjá ásökunum um að bankarnir verði afhentir „útvöldum“.

Sigríður nefnir sem dæmi að Eyjólfur Konráð Jónsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins á 8. og 9. áratugnum hafi talað fyrir þessari hugmynd og rifjar upp gömul ummæli Eyjólfs: „Almenningshlutafélög eru ekki einungis mikilvæg af efnahagsástæðum heldur eru þau e.t.v. þýðingarmesti þátturinn í því þjóðfélagskerfi, sem nefna mætti auðstjórn almennings eða fjárstjórn fjöldans,“ skrifaði Eyjólfur í bókinni Alþýða og atvinnulíf árið 1968.

Í greininni hvetur Sigríður efnahags- og viðskiptanefnd til að leggja fram frumvarp um að afhenda drjúgan hluta í Íslandsbanka til almennings samhliða hlutafjárútboðinu.