Þorsteinn Víglundsson Velferðarráðherra segir að með viðbótarframlagi sem ríkisstjórnin samþykkti í morgun til uppbyggingar á almennum leiguíbúðum sé tryggt að hægt verði að standa við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem séu meðal forsenda kjarasamninga.

Hægt verður að standa við yfirlýsingar um stuðning

Forsendunefnd aðila vinnumarkaðarins hittist á þriðjudag og mun ákveða hvort þeir telji að forsendur kjarasamninga standi.

„Annars vegar samþykkti ríkisstjórnin að veita allt að 1.500 milljónum til viðbótar í stofnstyrk til uppbyggingar á almennum leiguíbúðum til að tryggja að hægt verði að standa við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 2015 fyrir árið 2017," segir Þorsteinn í samtali við Viðskiptablaðið.

Skoða framboðsskort á lóðum

„Síðan, sem var ekki bein tenging inn á kjarasamningana, en tengist þó vissulega áherslum í þeim þegar kemur að húsnæðismálunum, en það var samþykkt að setja á fót sérstakan aðgerðarhóp fjögurra ráðuneyta, Velferðar-, Fjármála-, Umhverfis- og Samgönguráðuneytis, þar sem settar verði saman sérstakar aðgerðir til þess að liðka fyrir bæði byggingu lítilla íbúða og hagkvæmra aðgerða fyrir ungt fólk.

Einnig hvernig tekið verði á þeim framboðsskorti á lóðum, sér í lagi hér á höfuðborgarsvæðinu, þá í samvinnu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu."

Forsendur halda

Þorsteinn segir viðbótina eiga að duga til efna loforð um fjármagn í almennar leiguíbúðir sem er ein forsenda kjarasamninga.

„Þetta á að gera það þannig að við ættum að geta staðið við þann fjölda sem áætlað var að hægt væri að veita stofnstyrki til," segir Þorsteinn.

Umsóknir dýrari vegna fjölda stórra íbúða

„Það er hins vegar sjálfstætt áhyggjuefni sem við erum að skoða eftir fyrstu reynslu, er að umsóknir að byggingum íbúða eru almennt  talsvert stærri heldur en að var stefnt, og þar af leiðandi mun dýrari en gert var ráð fyrir.

Talsverður hluti þeirra umsókna sem hafa borist eru fyrir stærri og dýrari íbúðir heldur en þetta úrræði var hugsað fyrir."