Á Tækni- og hugverkaþingi Samtaka iðnaðarins sem haldið var á dögunum kynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunar, nýjan 2,5 milljarða króna hvatasjóð ríkisins fyrir nýsköpunardrifið frumkvöðlastarf til næstu þriggja ára. Sjóðurinn mun bera nafnið Kría, en hann er liður í nýrri nýsköpunarstefnu stjórnvalda fyrir Ísland.

Stefán Þór Helgason, ráðgjafi hjá KPMG í nýsköpun og stefnumótun, segir ríkið þurfa að gæta sín að ætla sér ekki of stórt hlutverk í að skapa nýsköpun.

„Ríkið getur ekki verið drifkrafturinn fyrir nýsköpun þó það hafi mikilvægt hlutverk við að styðja við hana. Menn taka oft dæmi um að iPhone hefði aldrei orðið til nema fyrir GPS-verkefnið sem gert var fyrir herinn, en hlutverk ríkisins má ekki verða of stórt. Það getur ekki ætlað að draga vagninn í nýsköpun með því að setja alltaf meiri pening í hana,“ segir Stefán Þór.

„Nýsköpun verður að koma frá grasrótinni, úr háskólastarfinu og úr þekkingunni sem þar verður til. Það góða við nýja sjóðinn, Kríu, er að hann kemur með einkaframtakinu inn í verkefnin sem það er tilbúið að veðja eigin peningum á. Þannig á ríkið að styðja við nýsköpun, frekar heldur en að ríkið ætli að fara að velja hverjum það fjárfestir í upp á sitt einsdæmi, því það gæti leitt til alls konar vandræða.“

Nýja sjóðnum er ætlað að fjárfesta í því sem ráðherrann kallar vísissjóðir, en það er íslenskun á á enska orðinu Venture Capital, enda sjóðirnir á ensku kallaðir „Ví-Sí“ eftir upphafsstöfunum. Jafnframt vísar hún í að íslenska orðtakið „mjór er mikils vísir“ eigi vel við fjárfestingu slíkra sjóða.

Í kynningu á nýja sjóðnum nefndi Þórdís Kolbrún hve vel hefði gengið að skapa góðan jarðveg fyrir þróun nýsköpunar í Ísrael og bendir Stefán á að þar hafi samsvarandi sjóður, Yozma, sem þýðir framtak á hebresku, starfað með góðum árangri frá árinu 1993.

„Væntanlega verða sjóðirnir sem fá þessa viðbótarfjármögnun að uppfylla einhver skilyrði, til að mynda að þeir hafi verið að fjárfesta í nýsköpun. Við erum með nokkra öfluga sjóði sem bankarnir, lífeyrissjóðirnir og fleiri hafa staðið að, eins og Crowberry Capital, Eyrir Sprotar, Brunnur vaxtarsjóður, Frumtak sjóðirnir og svo er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins gamall sjóður sem var stofnaður af ríki og atvinnulífinu. Hann er svokallaður sígrænn sjóður, það er þeir þurfa að losa hluti sína í fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í til að geta haldið áfram að fjárfesta,“ segir Stefán.

Hann tekur undir að þessi fjöldi og umgjörðin öll geti verið nokkuð ruglandi fyrir frumkvöðla sem eru að taka fyrstu skrefin, en þeir hjá KPMG bjóði upp á aðstoð í að feta sig áfram í þessum heimi.

„Flestir byrja með því að taka þátt í verkefnunum tveimur sem Icelandic Startups stendur að. Annars vegar Gullegginu, sem er keppni í að gera viðskiptaáætlanir fyrir verðlaunafé. Hins vegar hefur viðskiptahraðallinn Startup Reykjavík, sem Arion banki var fjárhagslegur bakhjarl fyrir fram á síðasta sumar, boðið upp á fjárfestingu upp á 2,5 milljónir króna í staðinn fyrir 6% hlut í frumkvöðlafyrirtækjunum. Nú er verið að leita að nýjum samstarfsaðila fyrir það,“ segir Stefán.

„Tækniþróunarsjóður er svo næsta skref fyrir flesta, sumir sleppa jafnvel Gullegginu og Startup Reykjavík alveg. Það er heilmikið ferli að sækja í þann sjóð ríkisins sem viðskiptahraðlar og -áætlanakeppnir geta hjálpað til við. Einnig er hægt að fá slíka hjálp hjá Nýsköpunarmiðstöð, sem er stofnun á vegum ríkisins.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .