Félagið Lindarhvoll var stofnað af fjármálaráðuneytinu í lok apríl 2016 og hafði það markmið að selja eigur sem féllu ríkinu í skaut eftir nauðasamninga við föllnu bankana undir lok árs 2015. Rekstrarkostnaður Lindarhvols á þeim tíma nam 196 milljónum króna. Félagið greiddi lögmannsstofunni Íslögum 80 milljónir króna fyrir umsjón með rekstri félagsins, fyrir utan virðisaukaskatt sem nam 19 milljónum króna. Félaginu var svo slitið í byrjun febrúar 2018.

Íslögum, sem er í eigu hjónanna Steinars Þórs Guðgeirssonar og Ástríðar Gísladótur, var greitt sem nemur tæplega fjórum milljónum króna á mánuði að jafnaði á meðan félagið var í rekstri en tæplega fimm milljónum króna á mánuði að meðtöldum virðisaukaskatti. Laun stjórnar Lindarhvols námu 32 milljónum króna á tímabilinu. Auk þess nam kostnaður við endurskoðun og eftirlit með samningi sem félagið gerði við fjármálaráðuneytið 43 milljónum króna

Í svari fjármálaráðuneytisins fyrir hönd Lindarhvols við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að Steinar Þór hafi verið vel til þess fallinn að vinna fyrir Lindarhvol. Hann hafi séð um gerð stöðugleikasamninganna við öll þau átta slitabú sem inntu stöðugleikagreiðslur af hendi til ríkisins og þess að hafa haft umsjón með móttöku og daglegum rekstri eignanna frá afhendingu þeirra til ríkisins. „Hann þekkti því vel forsögu málsins og einstakar eignir. Þá hafði Steinar Þór verið tilnefndur sem áheyrnaraðili („observer“) í stöðugleikasamningi við Kaupþing ehf. Stjórn Lindarhvols taldi einnig mikilvægt að gætt væri að samfellu við meðferð og rekstur þessara eigna, enda var ætlaður skammur tími til að leysa úr verkefninu,“ segir í svari fjármálaráðuneytisins.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .