Stjórnvöld munu ábyrgjast helming brúarlána fjármálafyrirtækja til fyrirtækja í rekstrarvanda að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þetta kom fram á blaðamannafundi stjórnvalda í dag þar sem efnahagsaðgerðir voru kynntar til að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar. Alls eru kostnaður við aðgerðir stjórnvalda metinn á 230 milljarða króna.

Ríkisábyrgð lána á að nema um 35 milljörðum króna eða um 1% af landsframleiðslu að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Viðskiptabankar fyrirtækjanna eiga að taka ákvarðanir um lánin í samstarfi við Seðlabankann.

Sjá einnig: Stjórnvöld kynna efnahagsaðgerðir

Ríkisstjórnin hefur þegar leitað heimildar Alþingis til að veita fyrirtækjum í vanda viðbótarlán, í samstarfi við Seðlabanka Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Þá hyggjast Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamtök lífeyrissjóða birta opinberlega samræmd viðmið um greiðslufresti á lánum og frekari fyrirgreiðslu til fyrirtækja sem verða fyrir tekjufalli vegna faraldursins. Þá á einnig að taka

Yfirlýsing stjórnvalda í heild sinni:

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. mars sl. segir að stjórnvöld muni efna til virks samráðs við Samtök fjármálafyrirtækja um viðbrögð þeirra við fyrirsjáanlegum lausafjár- og greiðsluörðugleikum fyrirtækja í ferðaþjónustu. Síðan yfirlýsingin var gefin hefur útbreiðsla faraldursins verið hröð og fjölmörg ríki hafa gripið til umfangsmikilla ráðstafana til að hefta hana. Þær aðgerðir hafa víðtæk áhrif á efnahagshorfur, allt atvinnulíf, heimili og einstaklinga.

Stjórnvöld hafa átt samráð við Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamtök lífeyrissjóða um þá stöðu sem upp er komin og þau viðbrögð sem rétt er að grípa til í því skyni að milda áhrif á heimili og fyrirtæki. Er Samkeppniseftirlitið upplýst um það og gerir stofnunin ekki athugasemdir við að aðilar á lánamarkaði eigi með sér samstarf um undirbúning að samkomulagi um fyrirgreiðslur í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er. Slíkt samkomulag er þó háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Af þessu tilefni vilja ríkisstjórn Íslands, Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamtök lífeyrissjóða upplýsa um eftirfarandi:

  • Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamtök lífeyrissjóða munu birta opinberlega samræmd viðmið um greiðslufresti á lánum og frekari fyrirgreiðslu til fyrirtækja sem verða fyrir tekjufalli vegna faraldursins.
  • Ríkisstjórnin hefur leitað heimildar Alþingis til að veita fyrirtækjum í vanda viðbótarlán, í samstarfi við Seðlabanka Íslands. Kveðið verður á um nánari skilyrði og útfærslu þessa úrræðis í samningi við Seðlabankann, en því er ætlað að styrkja enn frekar getu lánastofnana til að mæta aðsteðjandi vanda.
  • Fyrirvaralítið tekjufall heimila skapar þeim vanda og mikla óvissu. Lánveitendur sem eiga aðild að Samtökum fjármálafyrirtækja eða Landssamtökum lífeyrissjóða munu bregðast við með úrræðum til að styðja við heimili sem eiga við greiðsluvanda að stríða. Vel verður fylgst með stöðu heimila og einstaklinga.