Samtök fjármálafyrirtækja og Nasdaq Iceland boðuðu í morgun til morgunverðarfundar um stöðu verðbréfamarkaðarins á Íslandi, undir nafninu Úr fjötrum hafta - íslenskur verðbréfamarkaður í alþjóðlegu umhverfi. Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, flutti erindi sem bar nafnið Verðbréfamarkaður á tímamótum. Þar fjallaði hann um þær áskoranir og þau tækifæri sem fælust í því að Ísland væri orðið hluti af alþjóðamarkaði á ný í kjölfar haftaafnáms.

Sigurður Atli byrjaði að telja upp þá miklu kosti sem fylgdu afnámi hafta; hagaðilar gætu dreift áhættu víðar en áður og hefðu jafnframt möguleika á ný til beinna fjárfestinga erlendis. Á sama tíma væru til staðar nýir möguleikar fyrir erlenda aðila til sparnaðar og fjárfestinga hér á landi. Möguleikar til verðmætasköpunar fyrir samfélagið myndu margfaldast og lífskjör batna með opnun hagkerfisins. Hins vegar þyrfti stefnulega áætlun fyrir Ísland í heild til að ná lokamarkmiðinu, bættum lífskjörum. Tveir þættir skiptu þar höfuðmáli, stöðugleiki og uppbygging innviða.

„Ekkert vex á óstöðugum grunni. Við opnun hagkerfisins, hversu jákvæð sem hún er, opnast aðgengi að nýjum möguleikum og óneitanlega opnast samtímis fyrir fleiri tegundir af áhættu. Ógnin er alltaf fylgifiskur tækifæra,“ sagði Sigurður Atli.

Íslenskur verðbréfamarkaður „kraftaverk“

Hvað varðaði uppbyggingu innviða sagði Sigurður Atli að verðbréfamarkaðurinn gæti gegnt þar mikilvægu hlutverki, enda væri hann vettvangur fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins til að afla sér fjármagns. Stjórnvöld ættu að skapa umgjörð og leikreglur hinnar stefnulegu áætlunar til að virkja sköpunargleði borgaranna og samfélagsins í heild.

„Verðbréfamarkaðurinn tengir saman hagaðila sem vilja sækja sér fjármagn og þá sem vilja fjárfesta. Með skýrum leikreglum og gagnsæi í viðskiptum lækkar markaðurinn viðskiptakostnað í samfélaginu og gerir viðskipti möguleg sem ella yrðu hugsanlega ekki. Notagildi markaðarins fyrir samfélagið er mikið. Það er í raun kraftaverk að í jafn litlu hagkerfi og því íslenska sé starfræktur alvöru verðbréfamarkaður,“ sagði Sigurður Atli. Hins vegar mætti ýmislegt gera sem hefði jákvæð áhrif á virkni markaðarins og notagildi hans fyrir samfélagið. Vísaði hann þar í skýrslu Samtaka fjármálafyrirtækja um starfsumgjörð íslensks verðbréfamarkaðar frá október 2014, en þar var m.a. að finna 22 úrbótatillögur verðbréfahóps SFF.

Klikkuð hugmynd

Sigurður Atli sagði of langt mál að fara í hvert og eitt úrbótaratriði en sagði forsendur í vinnu verðbréfahópsins miðast við að innlendur verðbréfamarkaður starfaði eftir alþjóðlega viðurkenndri umgjörð . Þrátt fyrir að losun fjármagnshafta væri stórt skref væru enn atriði sem bæta þyrfti úr ef jafnræði átti að nást á frjálsum markaði.

Nefndi hann t.a.m. að skattlagning fjármálafyrirtækja hér á landi væri umtalsvert meiri en erlendra samkeppnisfyrirtækja vegna sértækrar skattlagningar á borð við fjársýsluskatt, sérstakan fjársýsluskatt og bankaskatt. Það þýddi hærri viðskiptakostnaður.

„Raunar er staðan einnig sú að ríkið sem leggur á skattana er sjálft eigandi fjármálafyrirtækja sem eru í samkeppnisrekstri. Ríkið sem eigandi að fjármálafyrirtækjum þarf auðvitað ekki að taka tillit til skatta þegar það gerir arðsemiskröfu til hlutabréfa sinna í bönkunum. Þannig er ríkið ekki aðeins í samkeppni við borgara sína, sem mér hefur alltaf þótt skrítin hugmynd, heldur skattleggur ríkið borgaranna einnig sérstaklega og stendur þannig betur að vígi í samkeppninni. Það er klikkuð hugmynd að sértæk skattlagning sé á fyrirtæki sem eru í beinni og harðri samkeppni við ríkið,“ sagði Sigurður Atli.

Dýrara regluverk

Sigurður Atli nefndi einnig að áhrif relgubyrði á íslenskan verðbréfamarkað væru umtalsverð. Smæð markaðarins gerði það að verkum að reglubyrðin væri hlutfallslega dýr og því væri mikilvægt að innleiða reglur með það í huga að markaðurinn sé lítill.

„Því miður eru mörg dæmi um að ekki hafi verið farið einföldustu og hagstæðustu leiðirnar við innleiðingu reglna. Jafnvel þær viðurhlutamestu hafa verið innleiddar og dæmi eru um að þær hafa ekki látnar duga, þótt íþyngjandi séu, heldur hefur sértækum ákvæðum verið bætt við þær,“ sagði Sigurður Atli. Nefndi hann t.d. umgjörð innherjareglna á Íslandi, sem væri töluvert flóknari en erlendis. Nú væri framundan hafsjór af nýjum og breyttum reglum með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.

Sigurður Atli nefndi nokkrar tillögur til úrbóta, m.a. að einfalda reglur um afdráttarskatt á aðila með takmarkaða skattskyldu við sölu á skuldabréfum íslenskra útgefenda á erlendum mörkuðum. Reglurnar torveldi framsal skuldabréfa innlendra útgefenda og geri það að verkum að bréfin verða síður fýsilegur fjárfestingakostur. Jafnframt mætti auka virkni verðbréfamarkaðarins, m.a. með tilliti til verðbréfalána og skortsölu. Þá séu hugsanlega of miklar kröfur gerðar til skráningar á First North markaðinn til að smærri og meðalstór fyrirtæki sjái sér hag í slíkri skráningu