Árið 2016 jukust útgjöld Íslands til ríkisaðstoðar um 18% frá árinu á undan. Alls nam ríkisaðstoðin 10,3 milljörðum íslenskra króna. Ríkisaðstoð til nýsköpunar, þróunar og rannsóknarverkefna jókst sérstaklega.

Þetta kemur fram í nýrri samanburðarskýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem birt var í dag. Skýrslan fer yfir ríkisaðstoð sem veitt var í EES EFTA-ríkjunum (Íslandi, Liechtenstein og Noregi) til ársloka 2016.

Aukningu ársins 2016 má helst rekja til ríkisaðstoðar sem Ísland veitti til verkefna á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar, sem saman nema 59% allrar ríkisaðstoðar á Íslandi. Sömu þróun mátti sjá í síðustu samanburðarskýrslu sem ESA gaf út, og halda Rannsóknar- og tæknisjóðir Rannís áfram að hljóta meirihluta styrkjanna.

Þrátt fyrir aukningu ríkisaðstoðar, er hlutfallið ennþá fremur lágt á Íslandi miðað við verga landsframleiðslu, og talsvert lægra en meðaltal ríkja Evrópusambandsins.

Í skýrslunni má lesa þrjár niðurstöður sem eiga við öll EES EFTA ríkin:

  • Öll ríkin hafa aukið útgjöld til ríkisaðstoðar.
  • Ríkisaðstoðin endurspeglar innlend stefnumið sem miðast að nýsköpun og grænu hagkerfi, sem er sameiginleg stefna allra 31 EES ríkjanna.
  • Nýting hópundanþága (GBER) er að aukast. Árið 2016 voru 95% allra nýrra tilkynninga um ríkisaðstoð hópundanþágur.