Ríkisvaldið rekur ljósvakamiðla í mörgum löndum, en líkt og á Íslandi voru þeir víða með einkaleyfi til útvarps lengi vel. Víðast hvar hafa ríkismiðlarnir færst í aukana við netmiðlun, en gengið misvel.

Í Evrópu sæta sumir ríkismiðlar gagnrýni fyrir hlutdræga fréttmiðlun, víða er deilt um fjármögnun þeirra o.s.frv.

Á netinu finnast mörgum ríkismiðlarnir frekir til fjörsins. Sú samkeppni sé ójöfn, því þeir bjóði ókeypis aðgang að fréttum, sem skattborgarar niðurgreiði. Við það geti enginn keppt.

Það er mikið til í því og sums staðar eiga aðrir varla sjens í miðla eins og BBC og DR. Á móti kemur, að víða hafa ríkismiðlarnir hins vegar ekki náð neinni sérstakri útbreiðslu á netinu, þykja jafnvel sérlega lélegir.