Ragnhildur Arnljótsdóttir hættir sem ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu um áramótin og Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari tekur við stöðunni.

Ragnhildur flytur sig í utanríkisþjónustuna þar sem hún mun opna nýja fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassborg, en hún tekur við því embætti 1. júní næstkomandi. Jafnframt verður hennar hlutverk að undirbúa formennsku Íslands í ráðinu sem hefst 2022.

Ragnhildur hefur gegnt embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu í rúman áratug og unnið með á öðrum tug ráðherra en hún var áður ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu frá árinu 2004 og fulltrúi í sendiráðinu Brussel frá 2002 til 2004. Hún starfaði í heilbrigðisráðuneytinu frá árinu 1995 og á Alþingi frá árinu 1993.

Bryndís er lögfræðingur að mennt og hefur gegnt embætti ríkissáttasemjara frá árinu 2015. Áður var hún starfsmannastjóri Landspítala-háskólasjúkrahúss og rektor við Háskólann á Bifröst. Þá gegndi Bryndís þingmennsku fyrir Alþýðubandalagið og Samfylkinguna á árunum 1995 til 2005. Hún var áður lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands og starfsmaður nefndar í dómsmálaráðuneytinu um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði.