Rio Tinto gekki í dag frá raforkusamningi við nýsjálenska orkufyrirtækið Meridian Energy vegna álvers félagsins á Nýja-Sjálandi sem gildir til desember 2024.

Félagið gaf út í júlí að til stæði að loka álverinu í ágúst á þessu ári . Af því verður því ekki að svo stöddu.

Einnig í viðræðum við Landsvirkjun

Álverið er eitt af tveimur álverum sem fyrirtækið hefur gefið út opinberlega að það sé með til skoðunar að loka, en hitt er hér á landi. Félagið hefur hótað því að loka álverinu í Straumsvík takist ekki nýir samningar við Landsvirkjun um lægra raforkuverð.

Rio Tinto segir félagið eigi áfram í viðræðum vegna flutningskostnaðar raforkunnar á Nýja-Sjálandi sem það telur of háan. Því kunni enn að vera að álverið loki í árslok 2024. Hins vegar geri raforkusamningurinn álverinu kleift að standa undir sér fjárhagslega.

Í frétt Reuters um málið er bent á að yfir þúsund manns vinni hjá álverinu sem sé stærsti einstaki kaupandi á raforku í landinu.

Á undanförnum vikum hefur álverð hækkað nokkuð og stendur í um 2.000 dollurum á tonnið eftir að hafa farið lægst í um 1.500 dollara á tonnið í vor.

Nánar verður fjallað um rekstrarhorfur álvera og annarrar stóriðju í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.