Erlendir aðilar hafa keypt íslensk tækni- og fjarskiptafyrirtæki fyrir á þriðja hundrað milljarða króna það sem af er þessu ári. Um verulegan vöxt er að ræða á milli ára. Þá er einungis horft til kaupa erlendra aðila á ráðandi hlut í fyrirtækjum. Ótalin er umtalsverð fjárfesting erlendra aðila í íslenskum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem og skráningaráform íslenskra félaga á borð við Alvotech, Kerecis og CRI á erlendri grundu.

Meðal stærstu viðskipta til erlendra fjárfesta á árinu eru sala Advania til sjóðs í eigu Goldman Sachs, sala gagnaversfélaganna atNorth, Verne Global og Borealis Data Centers til erlendra fjárfestingasjóða, sala á meirihluta í Creditinfo til LLCP og Skaganum 3X til Baader, sala Novator á helmingshlut í Nova til Pt Capital, sala Arion á Valitor til Rapyd, sala Símans á Mílu til Ardian, sala LS Retail til Aptos, sala Ueno til Twitter og sala InfoMentor til Nordtech auk innviðasölu Sýnar og Nova til DigitalBridge.

Kemur Íslandi til góða

„Þetta er mjög jákvæð þróun hér á landi. Það er búin að vera mjög mikil virkni á þessum markaði á þessu ári,“ segir Karl Guðmundsson, forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu. „Lengi vel var erlend fjárfesting í tæknifyrirtækjum fremur lág en á allra síðustu árum hefur hún aukist töluvert. Íslensk fyrirtæki eru orðin nokkuð lunkin í því að koma sér í tengsl við erlenda fjárfesta,“ segir Karl.

„Þegar Covid skall á vorum við smeyk um að fjárfestar myndu halda að sér höndum,“ segir Karl. En það hafi langt því frá reynst raunin. Karl bendir á að til viðbótar hafi metfé safnast í íslenska vísisjóði á árinu, alls um 40 milljarðar króna, líkt og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá.

„Við erum að draga mjög öfluga fjárfesta að borðinu sem eru farnir að fjárfesta með innlendu vísisjóðunum sem er mjög jákvætt. Það eykur bæði aðgengið að stærri sjóðum og mörkuðum.“

Með erlendum fjárfestum fylgir oftar en ekki sérfræðiþekking og aðgangur að fjármagni til að hraða vaxtaáformum fyrirtækja. Karl bendir á að reynslan hafi sýnt að þótt fyrirtæki séu seld erlendum aðilum þá haldi þau áfram starfsemi sinni hér á landi og nefnir CCP sem dæmi. Þá komi söluandvirðið íslensku efnahagslífi til góða í gegnum frekari fjárfestingar hér á landi. „Þetta er ákveðin hringrás af fólki, tengslaneti og fjármagni,“ segir Karl.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .