Einn stærsta pöntun á farþegaþotum í sögunni, að andvirði 4.125 milljarða króna, er sögð vera í bígerð, að því er kemur fram í frétt Reuters fréttastofunnar. Indverska lágfargjaldaflugfélagið IndiGo er sagt vera að leggja lokahönd á pöntun á yfir 300 Airbus A320 farþegaþotum, en félagið er stærsta flugfélag Indlands miðað við markaðsverðmæti.

Bæði IndiGo og Airbus neituðu að svara fyrirspurn Reuters um málið „að svo stöddu“ en hlutabréf Airbus hækkuðu um 1,4% eftir birtingu fréttarinnar.

Eins og áður sagði verður þetta ein stærsta einstaka pöntun á farþegaþotum sem gerð hefur verið í sögunni. Stærsta pöntunin hingað til átti sér stað fyrir tveimur árum þegar fjárfestingarsjóðurinn Indigo Partners lagði inn pöntun fyrir 430 Airbus farþegaþotum en sjóðurinn hafði milligöngu fyrir fjögur flugfélög í viðskiptunum. Gangi pöntun IndiGo eftir er um að ræða stærstu pöntun sem eitt flugfélag hefur nokkurn tíma lagt fram.

Flugfélagið IndiGo hefur vaxið með ógnarhraða síðastliðinn áratug og er nú með nærri helmings markaðshlutdeild á indverska markaðinum eftir að keppinautar eins og Jet Airways hafa orðið gjaldþrota á síðustu misserum. Stærsti samkeppnisaðili IndiGo í dag er feálgið SpiceJet sem flýgur eingöngu vélum frá Boeing.