Marinó Örn Tryggvason tók á dögunum við starfi forstjóra Kviku banka eftir að hann og Ármann Þorvaldsson, núverandi aðstoðarforstjóri, skiptu um hlutverk innan bankans. Marinó hóf störf hjá Kviku í ágústmánuði 2017 eftir að hafa starfað í eignastýringu hjá Arion banka og forverum hans frá árinu 2002. Hann starfaði sem aðstoðarframkvæmdastjóri eignastýringar hjá Arion frá 2014-2017 en þar á undan hafði hann verið forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta frá árinu 2007.

Spurður hvað hafi orðið til þess að hann ákvað að fara yfir til Kviku á sínum tíma segir Marinó að þetta hafi einfaldlega verið áhugavert tækifæri. „Ég hafði fylgst vel með Kviku og taldi að stjórnendur og starfsmenn hefðu staðið sig vel í að byggja upp öflugt fyrirtæki sem hefði einstakt tækifæri í samkeppni við aðra aðila á markaði. Það er töluvert öðruvísi að vinna hérna. Þegar ég fór yfir voru um 85-90 starfsmenn hjá Kviku á meðan þeir voru yfir 900 hjá Arion. Samt var fjárfestingarstarfsemin að mörgu leyti svipað stór. Það var og er meiri strategísk áhersla á fjárfestingarstarfsemi hér heldur en hjá stóru bönkunum. Ef við notum þóknunartekjur sem mælikvarða þá eru þær um 60-70% af okkar tekjum á meðan þær eru um 20-30% hjá stóru bönkunum. Þannig að fókusinn er allt annar.

Þegar ég kom hingað þá var Kvika með rúmlega 100 milljarða í eignastýringu. Það eru ekki nema nokkrir aðilar á þessum markaði og það er erfitt að reka eignastýringarfélag með arðsömum hætti með minna en 100 milljarða í stýringu þar sem það er mikil stærðarhagkvæmni í þessum rekstri. Þegar þú stækkar þá vex kostnaðurinn miklu minna heldur en tekjurnar. Í dag er eignastýringin okkar orðin yfir 400 milljarðar að stærð og búin að meira en þrefaldast á um tveimur árum bæði með innri en þó aðallega ytri vexti með kaupunum á Virðingu og GAMMA.“

Ólíkir öllum hinum

Fjárfestingarstarfsemi hefur verið meginstefið í rekstri Kviku undanfarin ár en að sögn Marinós var það lykilákvörðun fyrir tækifæri bankans í dag þegar ákveðið var að losa hann undan svokallaðri alþjónustukvöð. „Kvika er banki og með leyfi sem slíkur en við leggjum höfuðáherslu á fjárfestingarstarfsemi og eignastýringu. Þessar bankarætur skipta hins vegar talsverðu máli og gerir það að verkum að alls konar tækifæri eru til staðar. Ef við lítum aftur til MP banka-tímans þá var það lykilákvörðun sem þáverandi stjórnendur tóku að losna við þessa alþjónustukvöð, það að ætla ekki að gera allt fyrir alla. Með því að gera minna þá getum við þjónustað minni markhóp betur. Svo er auðvitað ábyrgð gagnvart hluthöfum að reka félagið með arðbærum hætti.

Þó það sé nokkur einföldun þá er bankakerfið hérlendis í stórum dráttum þannig, allavega á einstaklingsmarkaði, að tekjur bankakerfisins verða fyrst og fremst til með vaxtamun. Fólk fær almennt lága innlánsvexti af hefðbundnum bankareikningum og borgar háa vexti af yfirdrætti og flestum öðrum lánum. Þjónusta bankakerfisins sem er kostnaðarsamt að veita, er að miklu leyti borguð með vaxtamuninum. Þannig að sú ákvörðun að vera bara í hluta af starfseminni var djörf og mikilvæg. Ég held að stór hluti af þeim tækifærum sem eru til staðar núna séu vegna þess að ákveðið var að losa bankann undan þessari alþjónustukvöð, að þurfa ekki að gera allt.“

Spurður hvar Kvika standi í flóru íslenskra fjármálafyrirtækja sem samanstendur annars vegar af stóru bönkunum þremur og svo minni sérhæfðari fyrirtækjum sem annast fyrirtækjaráðgjöf, miðlun eða eignastýringu segir Marinó að Kvika standi þar mitt á milli. „Við erum í raun ólíkir öllum. Félagið er pínulítið miðað við stóru bankana en risastórt miðað við hin félögin. Kannski er hægt að kalla okkur risasmá. Það eru mörg lítil sérhæfð fyrirtæki sem geta náð góðum árangri og svo eru þarna þrír stórir bankar og við erum í raun þarna á milli. Við erum með innviði banka en með smæðina til þess að geta leyft okkur sérhæfingu litlu félaganna. Þannig að við erum að einhverju leyti að keppa við báða.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .