Annar skiptafundur þrotabús Wow air fór fram í dag. Fundurinn var snarpur og án orðalenginga.

Í máli skiptastjóranna Sveins Andra Sveinssonar og Þorsteins Einarssonar kom fram að búið er að taka afstöðu til stórs hluta forgangskrafna. Slíkar kröfur námu alls rúmlega fimm milljörðum króna en kröfur fyrir 2,7 milljarða hafa verið samþykktar. Búið er að taka afstöðu til krafna flugmanna og flugvirkja, sem og nokkurra einstaklinga, en kröfur vegna flugliða standa út af. Uppsagnarfrestum sem voru lengri en þrír mánuðir var hafnað af hálfu skiptastjóra en með því lækkuðu forgangskröfur um hálfan milljarð.

Enn á eftir að taka afstöðu til nokkurra bús- og sértökukrafna en þær námu tæplega sex milljörðum króna. Þá liggur ekki fyrir afstaða vegna veðkrafna Arion banka. Búið er að taka afstöðu til sértökukröfu bandaríska alríkisins upp á tæplega 578 milljónir króna en henni var hafnað.

Sveinn Andri sagði á fundinum að samstarf við lögmenn kröfuhafa hefði gengið vel og búið væri að sætta stærstan hluta þrætumála. Kollegi hans, fyrrnefndur Þorsteinn, sagði að einhver ágreiningsmál væru á leið fyrir héraðsdóm en ekki var útlistað frekar hvaða mál það væru.

Næsti skiptafundur fer fram 28. nóvember en vonir skiptastjóra standa til þess að þá verði búið að taka afstöðu til útistandandi forgangskrafna sem og annarra krafna, annarra en almennra krafna, fyrir þann fund. Engar athugasemdir voru bókaðar af hálfu mættra á fundinum og var honum slitið um fimmtán mínútum eftir að hann hófst.