Róbert Wessman, forstjóri Alvogen og stjórnarformaður Alvotech, var í vikunni kosinn í stjórn japanska lyfjafyrirtækisins Fuji Pharma. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

„Alvotech og Fuji hafa á undanförnum mánuðum átt í nánu samstarfi um markaðssetningu líftæknilyfja Alvotech í Japan sem nú eru í þróun. Fyrr á þessu ári var einnig tilkynnt um fjárfestingu Fuji Pharma í Alvotech fyrir um 50 milljónir bandaríkjadala en fyrirtækið eignaðist þannig um 4,2% í félaginu. Fuji Pharma er skráð í kauphöllina í Tokyo og tilkynnt var um nýja stjórn í vikunni á hluthafafundi fyrirtækisins í Tokyo," segir í tilkynningunni.

Róbert segir það spennandi verkefni að setjast í stjórn Fuji Pharma. “Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að setjast í stjórn fyrirtækisins og styðja þannig enn frekar við samstarf okkar. Fyrir Alvotech eru það talsverð tíðindi að japanskt lyfjafyrirtæki sjái tækifæri í að fjárfesta í íslensku líftæknifyrirtæki og treysta okkur fyrir þróun og framleiðslu lyfjanna fyrir japansmarkað. Við erum þakklát fyrir það traust og með stjórnarsetu minni hjá Fuji Pharma munu hagsmunir fyrirtækjanna tengjast enn frekar.“

Alvogen fjárfesti nýlega í Fuji Pharma og er nú þriðji stærsti hluthafi fyrirtækisins í gegnum dótturfyrirtæki sitt í Taiwan, með um 4% eignarhlut.